
Þegar við Bjarni Benediktsson höfðum sætaskipti í ríkisstjórn í október 2023 og hann tók við embætti utanríkisráðherra hafði ég á orði við hann að utanríkismálin séu þess eðlis að þau séu neðarlega á baugi í innanlandsstjórnmálum, en þegar þau skyndilega komast á allar varir, þá eru þau mikilvægari en allt annað. Þetta er orðinn veruleikinn hjá vinum okkar Grænlendingum og Dönum. Og vitaskuld er þetta viðvarandi raunveruleiki allra þeirra ríkja sem óttast að nágrannaríki þeirra muni ekki virða landamæri eða sjálfstæði þeirra.
Í erindi sem ég hélt á ráðstefnu um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf í Hörpu fyrir þremur árum sagði ég að öryggi Íslands í heiminum byggðist á þremur stoðum og tilgreindi hvað við gætum gert til þess að leggja eitthvað af mörkum til þess að styðja við þær.
Þrjár stoðir öryggis í heiminum
Fyrsta stoðin eru alþjóðalög, þar sem Sáttmálinn um hinar sameinuðu þjóðir er mikilvægastur. En þar sem alþjóðalög munu alltaf verið þeim annmarka háð að erfitt er fyrir ríki að framfylgja þeim hvert um sig þá myndar kerfi alþjóðlegra stofnana aðra stoð öryggis. Í alþjóðastofnunum er vettvangur til þess að leysa úr ágreiningi ríkja og finna leiðir til þess að takast á við sameiginleg viðfangsefni. Við stofnun Sameinuðu þjóðanna var hugmyndin að beiting vonpnavalds í heiminum yrði einungis heimil í bráðri sjálfsvörn eða á grundvelli ákvörðunar öryggisráðsins. Þótt segja megi að það hafi gengið „svona og svona“ þá er það engu að síður staðreynd að á tímanum sem liðinn er frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur sáralítið verið um landvinningastríð í heiminum í samanburði við fyrri aldir. Þriðja stoð öryggis Íslands, ef bæði alþjóðalög og alþjóðastofnanir reynast haldslaus, eru svo þau varnarbandalög og fjölþjóðastofnanir sem við höfum ákveðið að tilheyra.
Ég sagði líka á ráðstefnunni að ef þriðja stoðin brestur þá sé það ekki bara ískyggileg tilhugsun fyrir okkur hér á herlausa Íslandi, heldur einnig fyrir margfalt fjölmennari þjóðir sem þrátt fyrir eigin herstyrk treysta í raun alfarið á það nákvæmlega sama og við; tilvist alþjóðlegs réttarríkis og öfluga bandamenn.
Þetta gæti allt verið í uppnámi núna. Þar sem ég lærði að vera diplómatísk í tali þegar ég var utanríkisráðherra ætla ég að segja: Staðan gæti vissulega verið miklu verri og það er alls ekki víst að verstu spár um örlög vestrænnar samvinnu rætist. Við erum ennþá „bara“ á þeim stað að Trump stjórnin hefur bara hótað, en ekki beitt, hervaldi til þess að eignast Grænland. Við erum ennþá „bara“ á þeim stað að Bandaríkjaforseti „grínast“ með að kannski þurfi ekki að halda kosningar í haust. Kannski rennur ruglið skyndilega af yfirvöldum, eins og bandarískir þingmenn virðast enn vera að gefa vonir um. Kannski verður þetta bara allt í lagi. Kannski.
En það er ekki hollt fyrir sjálfstæða og fullvalda þjóð sem tekur ábyrgð á eigin málum að horfast ekki í augu við umhverfi sitt. Fámenn ríki sem hafa þurft að berjast fyrir sjálfstæði sínu leggja að jafnaði mjög mikla áherslu á að rækta framúrskarandi utanríkisþjónustu og viðhafa þroskað og yfirvegað samtal um utanríkismál á opinberum vettvangi. Við þurfum að skilja að Ísland hefur verið sjálfstætt og fullvalda á tímum þegar það hefur krafist minni fyrirhafnar og fórna en nokkru sinni áður í sögunni. Öll vandamál okkar í alþjóðamálum hafa verið lúxusvandamál. Stundum grunar mig að þessi þægindi geti reynst okkur hættuleg.
Það er vinsæll samkvæmisleikur í íslenskum stjórnmálum að reyna að lesa útúr öllu sem sagt er um alþjóðamál afstöðu til Evrópusambandsaðildar. „Ertu að segja að ættum að ganga í ESB?“ er algeng spurning sem ég fæ þegar ég tjái mig um utanríkismál og tala ekki illa um Evrópu. En ég er ekki að segja að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég er að segja að spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir eru miklu stærri en það. Vandamálin sem við munum mæta á næstu misserum, árum og áratugum verða kannski ekki bara lúxusvandamál. Sú staða sem við horfum upp á krefst þess að staða okkar í heiminum sé ekki rædd á grundvelli gamalla kredda og frasa sem þótt hafa nothæfir meðan alþjóðakerfið virtist ósnertanlegt.
Þegar myndin breytist þarf samtalið að breytast
Bandaríkin eru ekki fullkomin. Evrópusambandið er ekki fullkomið. Norðurlöndin eru ekki fullkomin og við erum sjálf ekki fullkomin. Við þurfum að horfa á og tala um heiminn eins og hann er, ekki eins og við óskum okkur að hann sé. Þegar sú mynd breytist, þá þarf samtalið líka að breytast. Ef við ætlum okkur að vera áfram sjálfstætt og fullvalda ríki þá þarf að vera hægt að eiga þroskað samtal um hvernig við raunverulega stöndum vörð um þá stöðu í heimi sem gæti verið að taka hraðari breytingum en við höfum séð frá því Ísland lýsti því yfir við heiminn að við værum sjálfstætt og fullvalda lýðveldi.