Það er mikil blessun að Ísland hefur í gegnum tíðina ekki verið eins ginnkeypt fyrir lýðskrumi og lýðhyggju og ýmis samfélög í Evrópu. Slíkar raddir heyrast vitaskuld stundum en þær hafa hingað til ekki hlotið raunverulegt brautargengi í kosningum. Í þessu samhengi skiptir máli að Sjálfstæðisflokkurinn, kjölfestuflokkurinn á hægri væng íslenskra stjórnmála, hefur staðist allar freistingar um að fara í slíkar áttir. Andstæðingar flokksins hafa oft reynt að halda hinu gagnstæða fram, en bæði almenningur og fræðafólk hefur séð í gegnum slíkan áburð.
Sjálfstæðisflokkurinn er borgaralega sinnaður flokkur, laus við öfgar. Hann er flokkur yfirvegunar og raunsæis. Þetta skiptir miklu máli fyrir sögulega stöðu Sjálfstæðisflokksins að geta bent á andstöðu sína við hvers kyns lýðskrum, öfgahyggju og fordómadekur þegar andstæðingar reyna að halda því fram að skilgreina megi Sjálfstæðisflokkinn sem hluta af slíkum hreyfingum. Mjög mikilvæg verðmæti felast í því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda þessari stöðu, þótt eðlilegt og óhjákvæmilegt sé að taka tillit til þeirra raunverulegu samfélagslegu viðfangsefna sem við blasa vegna breyttrar samsetningar þjóðarinnar.
Náðum stjórn á vandanum
Okkur hefur nú þegar tekist að ná stjórn á þeim tímabundna vanda sem fylgdi miklum fjölda hælisumsókna. Kostnaðurinn á þessu ári stefnir í að verða um 10 milljörðum lægri en spár gerðu ráð fyrir. Það þýðir þó ekki að verkefnalistinn sé búinn. Borgaraleg, öfgalaus og yfirveguð nálgun á viðfangsefni ríkisins afneitar ekki þeim vanda sem við blasir hverju sinni.
Öll vestræn samfélög glíma við vaxandi þjónustuþörf og breytta aldurssamsetningu þjóða. Þetta eru viðvarandi viðfangsefni samfélagsins sem verða ekki afgreidd með slagorðum eða kreddum, og þau verða heldur aldrei „leyst“ í eitt skipti fyrir öll. Vera má að það sé stundum líklegt til árangurs í kosningum að lofa því að leysa fólk og samfélög undan öllum vanda og áhyggjum, en sagan geymir enn sem komið er ekki dæmi um að slíkt hafi tekist. Þvert á móti þá er slík hugsun oft undanfari enn meiri vandræða.
Sjálfstæðisflokkurinn nálgast lausnir út frá borgaralegum gildum. Þau byggjast á því að treysta einstaklingnum umfram miðstýringu, en jafnframt að í einstaklingsfrelsinu felist umhyggja fyrir samfélaginu. Í nálguninni um borgaraleg gildi felst sú afstaða að almennir borgarar beri ábyrgð á samfélaginu sínu og að stjórnvöld gegni mikilvægu hlutverki en séu ekki upphaf og endir alls. Það má hugsa sér að snúa út úr hinni frægu setningu Loðvíks Frakkakonungs sem sagði: „Ríkið, það er ég“ og segja: „Ríkið, það er ég – og það ert þú og við öll.“ Hið opinbera er eitthvað sem við berum saman ábyrgð á og getum þess vegna ekki hegðað okkur eins og unglingur gagnvart foreldrum og bæði kvartað stöðugt undan afskiptasemi en ætlast á sama tíma til algjörrar verndar og forsjárhyggju.
Að lifa í borgaralegu samfélagi veitir okkur ómetanleg réttindi og frelsi, en leggur jafnframt á herðar okkar skyldur. Sjálfstæðisflokkurinn vill valdeflingu einstaklingsins; hvort sem um ræðir kraftmikinn frumkvöðul í einkageiranum, metnaðarfullan kennara, útsjónarsaman hjúkrunarfræðing eða ábyrgan verkfræðing. Við viljum að skattar séu lágir, sanngjarnir og umfram allt vel nýttir. Skattar eigi að nýtast til þess að halda uppi framúrskarandi lífskjörum sem nýtast öllum.
Virðing fyrir fé annarra
Frumskylda okkar sem bjóðum okkur fram til ábyrgðar og forystu er að fara vel með annarra manna peninga, sem við tökum af þeim í formi skatts, forgangsraða af alvöru og kjarki og einblína á þau verkefni sem ríkið sinnir og enginn annar getur; svo sem löggæslu, lágmarksframfærslu, rekstri skilvirkra stofnana og að greitt sé fyrir þjónustu sem fólk á rétt á, óháð því hvort hið opinbera veiti hana eða sjálfstæðir atvinnurekendur sem byggja upp þjónustuna.
Undanfarnir mánuðir, og ekki síst síðustu dagar, hafa sýnt að mikil gerjun er að eiga sér stað á Vesturlöndum. Þrátt fyrir gríðarlega efnahagslega velmegun gætir ónota víða og mörgum líður illa. Tölur á Íslandi sýna vaxandi fíknivanda og eru það eflaust einungis yfirborðsgárur sem gefa vísbendingu um þunga strauma vanlíðunar og óhamingju sem hrjáir alltof marga. Þetta eru raunveruleg vandamál sem eru ekki bara einkamál þeirra sem glíma við þau eða heilbrigðiskerfisins. Stjórnmálin þurfa líka að hlusta, skilja og bregðast við.
Ég trúi því að íslenskt samfélag standi á traustum grunni til þess að bregðast við þeim vendingum sem eru að eiga sér stað í heiminum og til þess að mæta þeim óvissutímum sem við blasa þá sé borgarleg hugsun, sem byggist á víðsýni og umhyggju fyrir landi og þjóð, það sem muni duga okkur best.
Skyndilausnir og slagorðapólitík, hvort sem þeim er pakkað í litlar umbúðir eða engar, skila okkur engum árangri. Yfirvegun og raunsæi á vandasöm viðfangsefni, með áherslu á mannlega og borgaralega nálgun, þar sem öll okkar fá tækifæri til að leggja af mörkum og gera gagn, er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á í 95 ár og mun halda áfram að gera.
Varist eftirlíkingar.