Ábyrg sigling út úr kófinu

Þegar Covid-aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru teknar saman kemur í ljós að þær nema alls um 210 milljörðum króna, samanlagt fyrir árin 2020 og 2021. Kröftugur stuðningur hefur dregið úr efnahagshögginu af faraldrinum bæði á fólk og fyrirtæki og hjálpar okkur nú að ná betri viðspyrnu heldur en ella hefði orðið.

Ánægja með efnahagsaðgerðir

Í könnun Gallup fyrir fjármálaráðuneytið kemur fram að mikil og vaxandi ánægja er með efnahagsaðgerðir stjórnvalda á meðal fyrirtækja. Næstum 60% svarenda lýstu yfir ánægju með þær og aðeins 10% sögðust óánægð. Athyglisvert er að ánægjan með aðgerðirnar var mikil í öllum stærðarflokkum fyrirtækja.

Það er mikilvægt að framlengja ekki þessar stuðningsaðgerðir lengur en nauðsynlegt er. Fyrir um það bil mánuði var kynntur nýr efnahagspakki stjórnvalda sem mögulega, og vonandi, verður sá síðasti vegna Covid-19-faraldursins.

Við virðumst nú vera á góðri leið út úr þessu einstaka ástandi og þá þurfa öflugar og arðbærar atvinnugreinar aftur að standa á eigin fótum.

Fram undan er vöxtur

Það er líka mikilvægt að fram kemur í könnuninni að fjárhagsstaða fyrirtækja er áfram góð hjá meirihluta svarenda. Meirihluti fyrirtækja segist standa vel fjárhagslega til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum vegna Covid.

Þriðjungur fyrirtækja sem svara ætlar að fjölga starfsfólki á næstu þremur mánuðum, sem er metfjöldi í sambærilegum Covid-könnunum á vegum Gallup.

Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að nú telja nær 70% svarenda í ferðaþjónustu að starfsfólki muni fjölga á næstu þremur mánuðum, en eins og nærri má geta sker ferðaþjónustan sig algjörlega úr í þessum könnunum hvað varðar fækkun starfa frá upphafi faraldursins.

Bjartsýnina má líka lesa út úr tölum Seðlabankans um útlán bankanna til fyrirtækja. Frá því í desember hafa þau aukist um 40 milljarða króna. Til samanburðar jukust þau ekki um nema átta milljarða allt árið 2020. Þetta bendir til þess að bjartsýni sé ríkjandi og vöxtur fram undan. Og að öllum líkindum er full innistæða fyrir því.

Að skapa eða skattleggja

Til lengri tíma veltur auðvitað allt á því hvernig þjóðarskútunni verður stýrt á komandi misserum. Núverandi ríkisstjórn hefur gert vel í því að leggja hvað mesta áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Ég er stolt af þeirri áherslu og trúi því að með henni séum við raunverulega að gera Ísland sterkara. Fyrir okkur öll. Sú áhersla er þegar farin að bera ávöxt í formi nýrra starfa og öflugra fyrirtækja. Við trúum því að sú uppskera muni halda áfram að vaxa.

Reynslan sýnir að freistingin er sterk til að hækka skatta ef enginn er um borð sem spyrnir við slíku – ekki síst þegar ríkissjóður hefur orðið fyrir höggi eins og núna. Skattahækkanir síðustu vinstristjórnar munu hafa verið 112 talsins á einu kjörtímabili fari ég rétt með. Óneitanlega er viðeigandi að sú tala sé akkúrat númerið hjá Neyðarlínunni.

Reynslan sýnir nefnilega fleira – og meðal annars þetta: Það er skynsamlegra að gefa fólki svigrúm til að skapa fremur en að skattleggja alla skapaða hluti. Þá skiptir líka máli að smíða ekki óþarfa hindranir svo fólk geti skapað verðmæti, að kerfið sé ekki hindrun í sjálfu sér og loks að taka burt óþarfa hindranir. Hér er verk að vinna.

Uppstokkun eða niðurskurður

Þá er ljóst að við þurfum að hugsa út fyrir hin þekktu og hefðbundnu box verkefna á vegum hins opinbera. Auka þarf stórkostlega nýsköpun í þeim öllum. Í heilbrigðismálunum einum munu útgjöld aukast verulega á næstu þremur áratugum, eða sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu, sé eingöngu horft til öldrunar þjóðarinnar. Þetta kemur fram í áætlun um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum til 30 ára í samræmi við lög um opinber fjármál. Fjármála- og efnahagsráðherra birtir áætlunina og er þetta í fyrsta sinn sem slík áætlun er birt. Ýmislegt annað áhugavert má lesa í þeirri skýrslu en þetta eina dæmi um áskoranir næstu ára segir okkur að það mun þurfa kjark til að nálgast mikilvæga starfsemi hins opinbera með fjölbreyttari hætti en við gerum í dag. Því fylgja vissulega áskoranir en líka ótrúleg tækifæri og spennandi framtíðarsýn.