,,Afbrigði“ er eitt af orðum sumarsins. Ný afbrigði af kórónuveirunni skjóta upp kollinum og vekja jafnan ugg um að þau séu ýmist meira smitandi eða hættulegri en fyrri útgáfur, nema hvort tveggja sé. Þetta þurfum við að taka alvarlega.
Sérfræðingar telja alls óvíst að heimsbyggðin losni nokkurn tímann við veiruna, meðal annars vegna þess að sífellt muni koma fram af henni ný og ný afbrigði, auk þess sem fólk sem er bólusett og hefur áður smitast getur smitast aftur, þótt líkur á alvarlegum veikindum séu litlar. Ef nýja kórónuveiran sem veldur covid-19 er komin til að vera má segja að við horfum fram á „líf með afbrigðum“. Það er svolítið kaldhæðnislegt frá sjónarhóli tungumálsins, vegna þess að „með afbrigðum“ þýðir venjulega „framúrskarandi“. En eitt af verkefnum okkar í dag er einmitt að meta hvernig við gerum lífið aftur framúrskarandi með hliðsjón af þessum nýja veruleika.
Framúrskarandi árangur
Mörgum finnst ábyggilega að „vonbrigði“ sé annað af orðum sumarsins, vegna bakslags í baráttunni með auknum fjölda smita að undanförnu. Smitin eru meðal annars afleiðing af hinu nýja afbrigði veirunnar. En önnur ástæða er sú staðreynd að bóluefnin vernda fólk ekki eins vel gegn því að smitast af veirunni og upphaflega var talið. Blessunarlega virðist vörnin gegn alvarlegum veikindum þó vera svo góð að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem greinast með veiruna eftir bólusetningu finnur einungis til smávægilegra einkenna. Fyrir þetta kraftaverk bólusetningar getum við verið þakklát. Jafnvel þótt veiran geti enn valdið alvarlegum veikindum heyrir slíkt til undantekninga hjá þeim sem hafa þegið bólusetningu, þótt slík tölfræði sé vitaskuld lítil huggun þeim sem eru svo ólánsamir að veikjast illa.
Í fréttum heyrum við mikið fjallað um smit og veikindi á meðal bólusettra einstaklinga. Við verðum að túlka þessar fréttir í því samhengi að bóluefnin eru ekki fullkomin. Annars gætum við dregið þá ályktun að þau virki ekki. Það væri kolröng ályktun. Þau draga stórkostlega úr líkum á alvarlegum veikindum. Tölurnar sýna þetta svart á hvítu. Við verðum að minna okkur sjálf á að mikilvægasta markmið viðbragða okkar við útbreiðslu smitsjúkdóma er að draga úr hættu á alvarlegum veikindum.
Við höfum fært miklar fórnir í varnarbaráttunni. Þjóðin hefur stutt dyggilega við vörnina með því að sætta sig við miklar skerðingar á frelsi sínu í þágu almannahagsmuna. Þessar skerðingar hafa komið misjafnlega illa við fólk. Við verðum að horfast í augu við að langvarandi ótti, takmarkanir á félagslegum stuðningi, snertingu og nánd hafa margvísleg skaðleg áhrif. Það er því ekki bara „hagsmunamál“ að koma samfélaginu aftur í eðlilegra ástand, heldur er það okkur lífsnauðsynlegt út frá líkamlegri og andlegri heilsu, þ.e.a.s. lífinu sjálfu.
Rannsóknir frá fyrstu mánuðum faraldursins bentu til að á heildina hefðu aðgerðir ekki komið illa við andlega heilsu fólks, að meðaltali. Skýringin var eflaust sú að mörgum hugnaðist hinn rólegri taktur sem fylgdi því að það hægðist á flestu. En meðaltalið segir ekki allt og breiðir yfir þá staðreynd að aðrir hópar hafa orðið illa úti vegna sóttvarnaaðgerða. Þúsundir misstu vinnuna eða stóran hluta tekna sinna. Skólastarf þúsunda ungmenna raskaðist þótt reynt væri að halda sjó. Fólk er líka misjafnlega vel í stakk búið til að þola aukna félagslega einangrun, og fólk er misjafnlega viðkvæmt fyrir ótta og kvíða. Og ekki alls fyrir löngu fengum við fréttir af rannsóknum sem sýna að andleg líðan ungmenna hefur versnað í faraldrinum. Mögulega má setja það í samhengi við fréttir af mjög mikilli fjölgun innlagna á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Alla þessa heildarmynd þurfum við að hafa í huga. Við þurfum ekki bara að verja viðkvæmustu hópana fyrir veirunni; við þurfum líka að verja viðkvæmustu hópana fyrir afleiðingum félagslegrar einangrunar, frelsisskerðingar og ótta. Aukið heimilisofbeldi og fjölgun tilkynninga til barnaverndaryfirvalda eru sömuleiðis alvarlegar afleiðingar sem taka þarf með í heildarmat okkar.
Endurmat á stöðunni
Reynist það rétt, sem ýmsir sérfræðingar telja líklegt og ég held að verði raunin, að kórónuveiran nýja komi til með að fylgja okkur um ókomna tíð þurfum við einfaldlega að endurmeta stöðuna. Þessi framtíðarsýn virðist ef til vill ógnvekjandi, en við nánari skoðun þarf svo ekki að vera. Veiran sem olli spænsku veikinni og margvísleg afbrigði hennar hafa verið með okkur alla tíð frá því hún olli heimsfaraldrinum sem hófst 1918, án þess að setja samfélagið á hliðina. Þá voru engin bóluefni sem dugðu til að efla mótstöðuna. Nú hefur kraftaverk vísindanna sett okkur í allt aðra stöðu með því að draga með afgerandi hætti úr eyðileggingarmætti veirunnar. Áhugavert er að sjá því sjónarmiði vaxa ásmegin í Danmörku að líta þurfi á áframhaldandi kórónuveirusmit sem viðvarandi ástand sem kalli ekki á umfangsmikil inngrip. Um þetta er fjallað í Politiken og rætt við Sören Riis Paludan prófessor í veiru- og ónæmisfræðum við Árósaháskóla.
Öll samfélög búa við margvíslegar hættur og ógnir. Samstaða okkar Íslendinga um að búa samfélagið undir að takast á við slíkar hættur er þjóðareinkenni. Það sannast reglulega þegar óveðursský af ýmsum toga hrannast upp á himni og þegar áföll dynja yfir. Það sannaðist enn þegar við héldum okkur til hlés til að hindra útbreiðslu veirunnar síðasta vetur. Og það átti sannarlega við þegar við hópuðumst í bólusetningu með uppbrettar ermar.
Vonandi mun það áfram eiga við að við horfumst óhrædd í augu við það sem að höndum ber í tengslum við heimsfaraldurinn, þakklát fyrir þann góða undirbúning sem bólusetningin mun áfram gefa okkur til þess að taka því sem að höndum ber.