Engum finnst gaman að láta sussa á sig. Að segja annarri manneskju að þegja þegar aðstöðumunur er augljós er högg og vekur hjá okkur flestum ólgandi þörf til að verja sjálfsvirðinguna og svara fyrir okkur.
Í Afganistan eru stelpur teknar úr skólum þegar þær byrja kynþroska. Þar hafa reglurnar um það hvenær þær eru skikkaðar til þess að hylja sig nánast frá toppi til táar þegar þær fara út meðal fólks þróast þannig á undanförnum árum að þær ná til stúlkna niður í fimm til sex ára aldurs. Frá því nú í ágúst má hlátur lítilla stúlkna, samtal unglingsstelpna eða samtöl kvenna ekki heyrast meðal almennings. Þær mega hvorki heyrast eða sjást að viðlögðum refsingum sem geta falið í sér fangelsun, útskúfun, fésektir eða opinberar barsmíðar. Þessar reglur eru settar í fjörtíu milljón manna samfélagi á grundvelli þess sem talibanar kalla upphafningu siðgæðis og vörn gegn löstum.
Hörmungar niðurbælingar og kúgunar taka á sig hryllilegri birtingarmynd í Afganistan en nokkurs staðar, en það er víðar en þar sem stjórnvöld, eða þeir sem hafa annars konar völd, þagga niður í fólki, útiloka það frá þátttöku í samfélaginu og refsa því.
Nánast alls staðar er slík kúgun réttlætt í nafni einhvers konar samstöðu eða siðferðis, en er í raun vopn hinna sterku til þess að drottna yfir og niðurbæla þau sem eru valdalaus.
Víða um heim, jafnvel í ríkjum með langa lýðræðishefð, blunda hugmyndir af sama meiði. Raunverulegt lýðræði og frelsi geta reynt á þolrif þeirra sem njóta góðs af óbreyttu ástandi. Það virðist hreinlega vera hluti af mannlegu eðli að vilja verja stöðu sína og dæmin eru óteljandi af valdhöfum sem smám saman verða afhuga gagnrýni og samkeppni. Á bak við kúgun og helsi eru alltaf einhverjir sem telja sig njóta góðs af því óréttlæti sem aðrir þurfa að sæta. Það á líka við í Afganistan. Niðurbæling kvenna þar er valdatæki.
Öll nóg með sitt?
Samkvæmt flestum þeim samtökum sem fylgjast með þróun lýðræðis og mannréttinda í heiminum býr vaxandi hlutfall mannkyns við stjórnarfar sem ekki virðir einstaklingsfrelsið. Samkvæmt Freedom House býr nú aðeins um 20% mannkyns í löndum sem teljast frjáls en fyrir 20 árum stóð það hlutfall í 46%. Þótt ekki sé einhlítur mælikvarði á frelsi þá er ljóst að hart er sótt að frelsi og frjálslyndi víða um heim. Og það er mikilvægt að þau lönd, eins og Ísland og sambærileg lýðræðisríki á Vesturlöndum, falli aldrei í þá gryfju að verða værukær um frelsið í skjóli þess að við stöndum okkur vel í samanburði við aðra.
En hvað kemur það okkur hér á Íslandi við þótt þaggað sé niður í stjórnarandstöðu í Belarús, hommar séu lamdir eða drepnir með vitund og vilja stjórnvalda í sumum ríkjum Afríku, vegið sé að lýðræðinu í sumum ríkjum Evrópu? Og hvað varðar okkur um það þótt táningsstúlkur eigi það á hættu að vera hýddar opinberlega ef þeir heyrast pískra sín á milli á götum úti í Afghanistan? Eiga ekki allir nóg með sitt?
Hagsmunamat
Ísland er ekki eina landið sem hefur tekið þá afstöðu að líta svo á að grundvallarréttindi einstaklinga til þess að njóta frelsis og mannhelgi nái út fyrir lögsögu ríkja. Nánast öll ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að framfylgja stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmálanum. Þetta er ekki bara vegna þess að okkur svíður sem manneskjum að vita af hörmungum sem fólk í öðrum löndum þarf að sæta heldur kalt hagsmunamat. Eftir að hafa orðið vitni af uppgangi fasískra afla í lýðræðissamfélögum Evrópu milli heimsstyrjalda og þeim óhugnaði veraldarstríðs sem fylgdi í kjölfarið, var það sameiginleg niðurstaða flestra ríkja að ákveða að það sé ekki einkamál eins ríkis að tryggja borgurum sínum grundvallarmannréttindi. Með því að setja upp sáttmála og stofnanir var gerð tilraun til þess að hlífa mannkyninu við afleiðingum þess þegar fordómar og kúgun ná tökum á samfélögum.
Ísland er fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi. Nú um helgina flutti ég fyrir hönd Íslands ræðu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðina þar sem ég vakti meðal annars athygli á því að við gefum kost á okkur til setu í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Ísland er ekki stórveldi, en við höfum ákveðið að sitja ekki hjá heldur taka ábyrga afstöðu með alþjóðalögum og mannréttindum hvar sem við getum. Við höfum ekki afl til þess að koma ein í veg fyrir þann viðbjóð sem konur í Afganistan þurfa að sæta, en við getum valið á hvaða vogarskálar við leggjum okkar lóð, og þegar kemur að rétti kvenna hvar sem er í heiminum til þess að tala og hafa áhrif, þá geta þau skipt máli.