Einungis íslensk lög gilda á Íslandi

Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi frumvarp sem vakið hefur töluvert umtal. Frumvarpið snýst um hina þrjátíu ára gömlu bókun 35 og er ætlað að tryggja að dómstólar geti leyst úr tiltölulega sjaldgæfu viðfangsefni í samræmi við skýran vilja Alþingis um að tryggja Íslendingum þau réttindi sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þótt um fremur tæknilegt mál sé að ræða  hefur skapast lífleg umræða um lagafrumvarpið og ýmis stór orð heyrst um að bráð hætta steðja að fullveldi þjóðarinnar og að verið sé að flytja lagaetningarvald úr landi. Skiljanlegt er að margir séu hugsi þegar svo miklar yfirlýsingar heyrast og koma frá málsmetandi fólki. 

Hin háværa umræða á sér einkum stað meðal tveggja hópa; annars vegar þeirra sem hafa sérstakan áhuga á lagatæknilegum úrlausnarefnum og hafa efasemdir um að EES samningurinn sjálfur sé innleiddur rétt í íslensk lög, og hins vegar þeirra sem almennt hafa efasemdir um veru Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu.  Mesta gagnrýnin á frumvarpið kemur vitaskuld frá þeim sem tilheyra báðum þessum hópum.

Ég efast um að rök mín eða sannfæringarkraftur dugi til þess að snúa þeim sem fylgja hvort sem er leynt eða ljóst þeirri stefnu að Íslandi eigi ekki að vera í EES. Sá hópur er fyrst og fremst að mótmæla ákvörðun sem tekin var fyrir þrjátíu árum. Að sama skapi er ég ekki bjartsýn á að mér takist að sannfæra þann hóp lagaspekúlanta sem hefur ætíð haft efasemdir um að hin þrjátíu ára gamla bókun 35 veiti fullnægjandi stoð til þess að innleiða í íslenskan rétt þær reglur sem þarf vegna EES samningsins.  Ég tel hins vegar mikilvægt að þeir sem styðja aðild okkar að EES fái staðfestingu á því að stóryrðin séu innistæðulítil og að óttinn sem í þeim felst sé ástæðulaus. Ekki minnsta hætta steðjar að fullveldi Íslands vegna þessa máls. Hér eftir sem hingað til verða einungis íslensk lög gild á Íslandi og engin breyting er á því hvernig EES lög og reglur taka gildi hér á landi.

Eflaust velta margir fyrir sér: Af hverju þarf að setja þessi lög. Ástæðan er sú—í sem einföldustu máli—að lög og stjórnvaldsfyrirmæli á tíðum ófullkomin og stangast stundum á. Þetta er ekki heppilegt leysa þarf úr þvi hvaða regla eigi að gilda umfram hinar. Meginreglan er sú að æðri réttarheimild geti rutt úr vegi óæðri réttarheimild. Þannig þurfa ákvarðanir stjórnvalda að vera í samræmi við reglugerðir, reglugerðir þurfa að byggjast á lögum og lög mega ekki vera í ósamræmi við stjórnarskrá.  Hið sjaldgæfa vandamál sem ég vísa til er þegar tvær reglur úr jafnhárri réttarheimild stangast á við hvor aðra. Að jafnaði er þetta vegna einhvers konar yfirsjónar eða vegna þess að upp koma ófyrirséð tilvik. Engu að síður er að verkefni dómstóla að komast að niðurstöðu og þarf þá að taka afstöðu til þess hvora regluna eigi að nota. Við slíkar aðstæður er beitt lögskýringarreglum til þess að meta hvor reglan komist nær því að vera í samræmi við vilja Alþingis og sé því rétt niðurstaða. Ein þessara lögskýringarreglna er að sértækari regla gildi umfram almennari; önnur er að nýrri relga eigi að gilda umfram eldri reglu – og á Íslandi var í lögum um EES samninginn lögfest sú lögskýringarregla að lög sem byggjast á skuldbindingum okkar í EES eigi að gilda umfram lög sem eiga annan uppruna. Um það snýst bókun 35 sem Ísland samþykkti við inngöngu í EES og frumvarpið sem ég lagði fram í vikunni er einfaldlega sett fram til þess að festa tilgang hennar betur í sessi.

Dómstólar á Íslandi þurfa meira afgerandi lagastoð til þess að beita þessari  lögskýringarreglu. Lagafrumvarpinu sem ég hef lagt fram er ætlað að taka af öll tvímæli og tryggja betur stöðu þessarar reglu, svo ekki leiki vafi á því að íslenskir borgarar njóti þess réttar í hvívetna sem ætlað var að tryggja með aðildinni að EES.  Málið snýst einungis um þetta, og er hvorki meira að sniðum eða minna.

Líklega á flest í íslenskri löggjöf einhvers konar alþjóðlegar fyrirmyndir og margt í okkar lögum er bein innleiðing á regluverki sem Ísland hefur ákveðið að undirgangast í alþjóðlegu samstarfi. Meira að segja stjórnarskráin var að stærstu leyti byggð á þeirri dönsku, og þegar mannréttindaákvæðum var bætt inn í hana byggðist það algjörlega á Mannréttindasáttmála Evrópu. Það að leita fyrirmynda í öðrum löndum og setja lög samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum er ekki óeðlilegt eða séríslenskt fyrirbæri og felur ekki í sér minnstu eftirgjöf á fullveldi eða sjálfsákvörðunarrétti þjóða.

Ekkert í bókun 35, EES löggöfinni eða frumvarpi mínu breytir þó þeirri reglu að lagasetningarvaldið er algjörlega og óskipt hjá Alþingi Íslendinga. Ef Alþingi hugnast getur það sett lög sem fara þvert gegn EES skuldbindingum, en til þess að hún hafi forgang þarf Alþingi að taka það fram. Tal um að lagasetningarvald sé framselt með þessari breytingu er því fullkomlega fjarstæðukennt. Við þau sem heyra yfirlýsingar og dómadagstal um að frumvarpið sem ég lagði fram í vikunni feli í sér framsal á fullveldi eða lagasetningarvaldi segi ég: Það er misskilningur. Hér erftir sem hingað til eru það einungis íslensk lög gilda á Íslandi.