Útey og Úkraína

Í vikunni tók ég þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem fór fram í Osló. Í tengslum við fundinn var haldin einkar áhrifamikil athöfn við minnisvarða um þau 77 sem féllu fyrir hendi hryðjuverkamanns í árásum í Osló og Útey þann 22. júlí árið 2011. Öll þau sem komin voru til vits og ára muna þessi skelfilegu tíðindi eins og gerst hefðu í gær, að í einu friðsælasta velmegunarríki veraldar – sennilega því ríki sem stendur Íslandi næst að flestu leyti – hafi slíkur óhugnaður getað gerst.

Hryðjuverkamaðurinn gerði að skotmarki sínu ungt fólk sem hafði safnast saman til þess að taka þátt í lýðræðislegu starfi og að ræða um sameiginlega framtíð. Það aðhylltist almennt frjálsræði og umburðarlyndi. Þeirra störf voru ekki ógn við neinn, en þetta friðsemdarfólk gat ódæðismaðurinn ekki þolað. Eftir að hafa sprengt sprengju sem varð átta að bana í miðborg Osló fór hann dulbúinn sem lögreglumaður á fundarstað ungmennanna og skaut þau köldu blóði; alls 69 – þau tvö yngstu fjórtán ára gömul.

Hryðjuverkamaðurinn aðhylltist heimssýn niðurbælingar og kúgunar. Hans óvinur var fjölbreytileikinn og frelsi fólks til þess að vera það sjálft. Hryðjuverkin minntu á að þrátt fyrir fordæmingu á verknaðinum sjálfum þá eru til staðar pólitísk öfl, jafnvel í frjálsyndum ríkjum, sem reyna að ala á nákvæmlega þeirri sömu hatursfullu hugmyndafræði sem heltók huga norska fjöldamorðingjans. Þótt illvirkinn hafi sjálfur lýst sérstakri aðdáun sinni á einum tilteknum núlifandi stjórnmálamanni þá var fordæmingin á verknaði hans algjör og undantekningarlaus.  

Margt í heiminum er flókið og sum gráu svæðin eru býsna stór. En sumt er einfalt. Þegar kom að fordæmingu á ógnarverkunum í Osló var enginn millivegur til; engin sómakær manneskja velkist í minnsta vafa um að bæði málstaðurinn og aðferðirnar eru fyrirlitlegar. Hin fallega minningarstund um fórnarlömbin í vikunni var líka áminning um mikilvægi þess að halda áfram að heiðra minningu þeirra sem féllu og rifja upp viðbrögð norsks samfélags við hryllingnum.

Fyrstu viðbrögð Jens Stoltenberg, sem þá var forsætisráðherra Noregs, voru ógleymanleg og eldast vel. Í stað þess að láta reiði og hefndarhug ná tökum á sér sagði hann að norskt samfélag myndi staðfastlega verja gildi sín og vera áfram opið, umburðarlynt og umvefjandi samfélag. „Viðbrögð Noregs við ofbeldi er meira lýðræði, opnara samfélag og meiri þátttaka í samfélagsmálum,“ sagði hann og minnti einnig á mikilvægi þess að greina milli þess að hafa öfgafullar skoðanir og beita ofbeldi. „Við þurfum að gera skýran greinarmun á því að hafa öfgafullar skoðanir og lífssýn. Það er algjörlega löglegt. Það sem er ekki hægt að þola eru tilraunir til þess að þrýsta slíkri hugmyndafræði upp á aðra með því að beita ofbeldi.“ Þessi orð hans höfðu mikil áhrif á mig sem unga manneskju og það var mér dýrmætt að fá tækifæri til að nefna það við Stoltenberg í samtali okkar í vikunni.

Í dag gegnir Stoltenberg embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Ber flestum saman um að þar sé réttur maður á réttum stað og réttum tíma. Nú gegnir hann forystuhlutverki við að tryggja samstöðu um stuðning við Úkraínu. Í þeim hildarleik er gráa svæðið heldur ekki stórt. Innrás Rússa er ætluð til þess að brjóta undir stjórn Rússlandsforseta þjóð sem hefur valið brautina sem liggur í áttina til meira lýðræðis, opnara samfélags og tryggara réttarríkis. En þetta getur Pútín ekki horft upp á því hans hugmyndafræði byggist í auknum mæli á mannfjandsamlegri tortryggni, hatri á samkynhneigðum og niðurbælingu á mannlegri reisn og frelsi. Í nafni þessara hugmynda stendur hann fyrir voðaverkum í Úkraínu og þessari hugsun reynir hann að spúa yfir heimsbyggðina með því að gefa í skyn að frelsi og manngæska séu áróður Vesturlanda og til marks um veiklyndi. Allt sómakært fólk á því auðvelt með að hafna þessum blekkingum og taka afgerandi afstöðu með málstað Úkraínu.

Stoltenberg hefur verið óspar á að benda á að þjóðir Atlantshafsbandalagsins bundust einmitt fastmælum um samstöðu í nafni frelsis og mannréttindi; alls þess sem stríð Rússlands og undirróður andlýðræðislegra afla reynir að eyðileggja. Vonandi nálgast sigur Úkraínu á innrásarhernum. Þá verður það Pútín eflaust lítil huggun að vita af einum hraksmánarlegum lífstíðarfanga í Noregi sem hélt með honum.