Hagsmunir í hugsjónum

Þegar kemur að mati á afstöðu til alþjóðamála er það vitaskuld frumskylda stjórnvalda að gæta ætíð hagsmuna sinnar þjóðar. Þess vegna er fyrsta spurningin sem utanríkisráðherra spyr sig að í öllum málum sem taka þarf afstöðu til: „Hvað er hið rétta fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf?“

Slíkt mat er þó sjaldnast einfalt. Taka þarf tillit til margvíslegra þátta sem geta skipt máli. Þá er oft ósamræmi milli þess sem felur í sér skammtímaábata og hins sem er mikilvægara til langs tíma litið. Stundum eru efnahagslegir hagsmunir einkaaðila á einn veg en hagsmunir þjóðarinnar í alþjóðasamstarfi aðrir. Í viðkvæmum málum getur þar að auki sú staða verið uppi að byggt sé á upplýsingum sem ekki er hægt að greina opinberlega frá.

Þar sem heimurinn er óviss er þar að auki eðlilegt að meiningar séu deildar um flestar ákvarðanir og sennilega fátt mikilvægara en að viðhalda auðmýkt gagnvart þeim veruleika að svör við flóknum spurningum eru sjaldnast einföld og aldrei er hægt að hafa algjöra viss um að mannlegar ákvarðanir séu réttar.

Þau okkar sem gefa kost á sér og er treyst til áhrifastarfa í stjórnmálum mega þó aldrei láta þessa óvissu lama sig af ákvarðanafælni. Það er skylda okkar sem er falin ábyrgð á mikilvægum hagsmunum þjóðarinnar að undirbúa okkur af nægilegri kostgæfni til þess að við stöndum á traustum grunni þekkingar þegar taka þarf afdrifaríkar ákvarðanir. Slíkur undirbúningur eykur líkur á góðum ákvörðunum en engin gulltrygging er fyrir því að jafnvel hinar vönduðustu ákvarðanir reynist réttar. Þetta sanna ýmis dæmi þar sem jafnvel allra reyndustu stjórnmálamenn hafa tekið afgerandi ákvarðanir sem sagan fer ómjúkum höndum um.  Þetta þekkja allir þeir sem borið hafa ábyrgð og undan þessari óvissu geta stjórnmálamenn ekki kvartað.

Heimurinn margfalt flóknari en svo að hægt sé að halda því fram að togstreita í ákvarðanatöku ríkja í utanríkismálum sé hægt að  skipta snyrtilega í tvo afmarkaða flokka – að þær byggist annað hvort á hagsmunum eða hugsjónum. Teldist það til dæmis þjóna hagsmunum ríkis að beita ríkisvaldinu sérstaklega til þess að gera fyrirtækjum kleift að hagnast á viðskiptum í ríkjum þar sem auðsköpun byggist á mannréttindabrotum? Er það í trássi við hugsjónadrifna stefnu að eiga diplómatísk samskipti við ríki þar sem stjórnvöld brjóta mannréttindi á sínum eigin þegnum – og hvar á að draga slíka línu? Hvenær eru innanríkismál orðin þess eðlis að eðlilegt sé að önnur ríki hafi áhyggjur af þeim eða afskipti? Viðfangsefni sem þessi eru það sem ákvarðanataka í utanríkismálum snýst um og það skiptir máli fyrir þjóðir að taka sem oftast réttar ákvarðanir, einkum í stærstu málunum.

Fyrir flest ríki er myndin ekki svo einföld að hægt sé að draga skýra línu milli hagsmuna og því sem við flokkum sem hugsjónir. Mjög eindregin raunsæisstefna getur nefnilega leitt til þeirrar niðurstöðu að hagsmunum þjóðar sé einmitt best þjónað með því að taka skýra afstöðu með réttindum einstaklinga, einörðum stuðningi við alþjóðalög og jafnvel réttindum og lýðræðisþróun í öðrum ríkjum. Raunsæi gagnvart hagsmunum getur birst sem frjálslyndi og hugsjónamennska.

Í tilviki Íslands blasir við að mikilvægasta hagsmunamál okkar á alþjóðasviðinu er að alþjóðalög séu virt en hnefaréttur hinna sterku fái ekki að ráða. Þar er virðingin fyrir landamærum og lögsögu fullvalda ríkja það sem skiptir Ísland mestu máli. Ef ríki ákveða að virða ekki alþjóðalög treystir heimurinn á það kerfi alþjóðlegra stofnana sem ætlað er að standa vörð um alþjóðalög, en samstaða ríkja gegn reglubrjótum hefur einnig afgerandi áhrif. Ef hvorki alþjóðalög eða alþjóðlegar stofnanir duga til þess að halda aftur af þeim sem ekki virða leikreglurnar reynir að samstöðu þeirra ríkja sem myndað hafa bandalög um að verjast saman í nafni sameiginlegra hagsmuna og sameiginlegrar sýnar. Þar eru aðildin að Atlantshafsbandalaginu  og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin þær tryggingar sem Ísland reiðir sig á, og eru engar betri í boði.  

Það er því svo í tilviki Íslands að stærstu hagsmunir okkar á alþjóðavettvangi eru fólgnir í því að standa með þeirri hugmynd að þjóðir leysi á friðsamlegan hátt úr deilum, að þau virði alþjóðalög og að samstaða ríki gagnvart þeim sem grafa undan því fyrirkomulagi. Hjá okkur fara því hugsjónir og hagsmunir saman. Meðal Íslendinga virðist almennt mikill skilningur á því að hagsmunir okkar séu nátengdir grundvallargildum sem góð sátt er um að eigi að einkenna gott samfélag, sama hvar það er í heiminum. Og þessar hugsjónir, sem skipta máli fyrir alla einstkalinga, eru líka grundvöllur fyrir alla hagsmuni atvinnulífsins.

Í árlegri könnun Maskínu um viðhorf til utanríkismála kom fram að einungis 5,5% telja ekki skipta máli að Ísland tali máli mannréttinda á alþjóðavettvangi, svipað hlutfall telur að hagsæld Íslands byggist ekki á alþjóðasamvinnu og um 7% eru andsnúin því að Ísland styðji við Úkraínu í varnarbaráttu þeirra. Um 85% telja það skipta miklu eða mjög miklu máli að Ísland tali fyrir mannréttindum og sama hlutfall segir það skipta miklu eða mjög miklu máli að Ísland hafi gott orðspor á alþjóðavettvangi. Þessar áhugaverðu niðurstöður sýna að á Íslandi ríkir skilningur á þeirri staðreynd að þegar kemur að mikilvægustu hugsjónamálunum í alþjóðamálum þá fara þau jafnan saman við það það gæta hagsmuna Íslands.