
Ískyggileg fullyrðing kom nýlega fram í skoðanapistli David Brooks í New York Times. Samkvæmt athugunum á lestrargetu fullorðins fólks í Bandaríkjunum nær um þriðjungur landsmanna ekki þeim viðmiðum um hæfni sem ætlast má til af tíu ára börnum. Þetta merkir að þriðjungur fullorðinna Bandaríkjamanna getur tæplega haldið þræði í texta sem er flóknari en einfaldar myndasögur eða barnabækur. Niðurstaðan er sambærileg þegar kemur að getu fólks til að leysa úr viðfangsefnum sem krefjast reiknikunnáttu og rökhugsunar. Mér er ekki kunnugt um að sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi, en ömurlegur og versnandi árangur Íslands í alþjóðlegum samanburðarprófum gefur sannarlega ekki tilefni til bjartsýni. Í ljósi þeirra vísbendinga sem komið hafa fram í PISA rannsóknum undanfarið væri glannalegt að ætla að staðan á Íslandi sé betri en gengur og gerist í kringum okkur; ef eitthvað er væri hyggilegt að búast við hinu versta. Og það er fráleit nálgun að hætta bara samanburði og halda að staðan lagist við það.
Lestur og lýðræði
Hvað sem segja má um vandað sjónvarpsefni eða áhugaverð hlaðvörp þá er það fyrst og fremst í gegnum lestur (og samtöl við vel lesið fólk) sem við öðlumst dýpri skilning og víðari sýn á heiminn. Ef önnur samfélög á Vesturlöndum eru á sömu leið og Bandaríkin er það því ekki aðeins áhyggjuefni fyrir útgefendur bóka og dagblaða; heldur er það tilvistarógn við frjálslynt lýðræðissamfélag.
Ef stórt og vaxandi hlutfall fólks skilur ekki einfaldan texta, getur ekki sett tölur og stærðir í vitrænt samhengi og flaskar á léttum rökþrautum þá dugir ekki bara að hneykslast, skammast eða hafa þungar áhyggjur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir stöðunni og grípa til aðgerða. Vitsmunaleg heilsa samfélags er nefnilega ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa, og ekki skortir á umfjöllun og hvatningu til þess að fólk taki hana alvarlega.
Við lifum á tímum þegar auðskiljanleg og fyrirhafnarlítil afþreying er alltaf við höndina. Á hverjum einasta degi vinna smáforrit og samfélagsmiðlar á snjallsímann samkeppnina um athygli okkar flesta með miklum yfirburðum. Einhver þeirra eru beinlínis sögð hönnuð til þess að þvæla samfélagið og jafnvel grafa undan því innan frá. Í Bandaríkjunum er talið að unglingar verji að meðaltali sjö til níu klukkustundum á dag starandi á skjái í öðrum tilgangi en námslegum. Mig grunar að staðan sé ekki mikið skárri hjá mörgu fullorðnu fólki – (og hún er ekki sérstök hjá mér sjálfri).
Frjálslynt og lýðræðislegt samfélag byggir á þeirri forsendu að almenningur taki virkan þátt, móti sér upplýstar skoðanir, tjái þær og velji sér fulltrúa til þess að fara með völd í samræmi við rökrétta hugsun. Í því felst að sjálfsögðu ekki að allir verði sammála, heldur einfaldlega að grundvöllur pólitísks ósættis sé málefnalegur en ekki bara tilfinningalegur æsingur, eða ráðsstjórn lyklaborðsins. Hér er ábyrgð stjórnmálamanna mikil. Í fyrsta lagi eru það stjórnmálamenn sem bera mikla ábyrgð á þróun samfélagsins, þar á meðal menntakerfisins. Í öðru lagi ættu stjórnmálamenn að gæta sín sérstaklega á því að verða ekki sjálfir hluti af vandamálinu með því að steypa pólitískri umræðu ofan í forarpytt persónuníðs, kreddu eða ofureinföldunar. Og í þriðja lagi þurfa stjórnmálamenn að beita sér til þess að styðja við það í samfélaginu sem ræktar vitsmunalegan þroska en sporna gegn því sem grefur undan honum. Ekkert af þessu er einfalt, fljótlegt, þægilegt eða líklegt til pólitískra skyndivinsælda. En allt er það vel þess virði.
Ef getu fólks til þess að skilja umhverfi sitt fer hrakandi þá felst í því ógn við lýðræði, efnahag og menningu þjóðarinnar. Í raun er erfitt að ímynda sér meira aðkallandi pólitískt málefni.
Ég veit ekki svörin og mig grunar að enginn þekki þau. En vandamálið er til staðar og má ekki stækka. Í einhverjum skilningi virðist sem samfélög á Vesturlöndum hafi villst af leið og vanrækt eina mikilvægustu forsendu velmegunar sinnar í þeirri trú að einhvern veginn hljóti hlutir að reddast. Reynist það rétt að við höfum tapað áttum og séum að leyfa vitsmunalegri heilsu okkar að hraka þá er fyrsta skrefið að gera sér grein fyrir því, staldra við og grípa til aðgerða – en ekki eyða orku og tíma í að benda út og suður á sökudólga.
Og eins og með allt annað sem snýr að heilsu þá þarf hver og einn að byrja á sjálfum sér og sínum börnum.