Skuld eða stuðningur?

„Það er fásinna að láta sem svo að baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar komi okkur ekki við.“ Þessi orð voru sönn þegar Bjarni Benediktsson hinn eldri sagði þau um það leyti þegar Ísland var fyrst að fóta sig sem sjálfstætt ríki með eigin utanríkisstefnu. Og þau eru enn bæði sönn og viðeigandi. Við erum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að lifa tíma í heimssögunni sem gera miklar kröfur til okkar allra. Allir menn sem vilja njóta frelsis þurfa að hafa fyrir því og allar þjóðir sem vilja vera fullvalda og sjálfstæðar þurfa að vanda sig til þess að tryggja einstaklingunum tækifæri til þess að búa við frið og frelsi.

Þegar ég stóð í herbergi sonar míns, seint að kvöldi, að undirbúa stuðning við bandamenn, í formi flugs, sem vildu senda gömul vopn til Úkraínu tveimur sólarhringum eftir innrás Rússa hugsaði ég að svona ætti tíminn ekki að fara með okkur. Ég upplifði strax að uppvaxtarár og framtíð kynslóðar barnanna minna yrði allt öðruvísi en minnar. Ég hét sjálfri mér því að vanda mig og taka ábyrgð mína alvarlega. Ég vissi að þessi nýi veruleiki kæmi til með að kalla á nýjar ákvarðanir og breytingar og að það yrði áskorun að koma því leiðar í samfélaginu okkar – sem hefur lært frá blautu barnsbeini að við séum svo langt frá heimsins vígaslóð að hún komi okkur varla við.

En hafi orð Bjarna Benediktssonar verið sönn fyrstu áratugina eftir að Ísland tók utanríkismálin í sínar hendur, þá eiga þau enn frekar við nú. Baráttan milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar, virti ekki landamæri þá og gerir það enn síður nú. Íslenskir stjórnmálamenn sem tala eins og okkur dugi að hugsa um Ísland fyrst eru ekki bara á skjön við nútímann heldur eru þeir úr takti við alla þróun heimsmála í að minnsta kosti heila öld. Sú hugsun er áþekk því að hamstra vatn á meðan hús nágrannans brennur án þess að hugsa út í hvert eldurinn er líklegur til þess að læsast næst. Frelsið og sjálfstæðið getur krafist efnahagslegra og pólitískra fórna og til lengri tíma getur það verið óeigingirni sem best tryggir einkahagsmuni.

Pólitísk sátt þvert á flokka
Í tillögu til þingsályktunar um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028 (https://www.althingi.is/altext/154/s/1223.html) sem samþykkt var af öllum flokkum á Alþingi kemur fram að innrásarstríð Rússlands í Úkraínu sé alvarlegasta öryggisógn sem steðjað hefur að Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og skýr atlaga að alþjóðakerfinu sem byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, friðhelgi landamæra og landhelgi ríkja. Þar segir: „Með stuðningi við öryggi og sjálfstæði Úkraínu standi stjórnvöld vörð um beina öryggishagsmuni Íslands, alþjóðakerfið og alþjóðalög sem fullveldi Íslands byggist á. Þegar kemur að stuðningi við Úkraínu þá er það enn þannig að þar þarf fyrst og fremst vopn og fjármagn til vopnaframleiðslu“ í beinu framhaldi: „Þunginn í varnartengdum stuðningi Íslands mun áfram liggja í framlögum í fjölþjóðlega sjóði sem kaupa hergögn og birgðir, og tvíhliða verkefnum sem grundvallast á beiðnum úkraínskra stjórnvalda eða bandalagsríkja þar sem óskað er eftir sértækum stuðningi og þjálfunarverkefnum sem flest eru unnin í samstarfi við önnur ríki.“

Í afgreiðslu Alþingis felst sú stefna að stuðningur Íslands við Úkraínu sé svipaður miðað við höfðatölu og önnur Norðurlönd. Eins og sakir standa erum við víðs fjarri því að komast nálægt því. Í þingsályktuninni segir skýrt að gert sé ráð fyrir að „framlög verði ákvörðuð við fjárlagagerð hverju sinni með hliðsjón af framlögum annarra ríkja Norðurlandanna“ en samkvæmt Kiel eru heildarframlög Íslands hingað til um 0,32% af landsframleiðslu á þessum tæplega fjórum árum. Danmörk, sem er fremst í flokki allra ríkja, hefur lagt til 3.4%, ríflega tífalt meira en við. Og þótt munurinn við hin Norðurlöndin þá er hann samt margfeldi en ekki sjónarmunur.

Ég veit vel og þekki á eigin skinni að þetta er umdeilt hér á landi. En þegar við horfumst heiðarlega í augu við staðreyndir þá blasir þessi staða við. Úkraína biður engan um að senda hermenn í stríðið sem heldur aftur af útþenslutilburðum Rússa. Í því samhengi má jafnvel segja að framlög annarra frjálsra ríkja sé meira í ætt við greiðslu á skuld en einhvers konar góðgerðarframlag.

Fyrir utan þess að leggja fram það sem sanngjarnt er til þess að Úkraína geti varið Evrópu hernaðarlega, þurfum við sjálf að taka ábyrgð á að verja samfélag okkar gegn tilraunum Rússa og tengdra aðila til þess að grafa undan frelsinu. Eðli rússnesku innrásarinn er óbreytt og valdaþorsti heimsvaldasinna í Kreml er hinn sami óháð því hvaða hugmyndafræði hann er sveipaður. Baráttan er enn milli frelsis og kúgunar, lýðræðis og áþjánar.

Það minnsta sem við getum gert er að sýna stuðning og virðingu í verki. Gleymum ekki að bandamenn okkar hafa margir lofað að færa aðrar eins fórnir fyrir frelsi Íslands eins og sínar eigin þjóðir. Það er því eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt að halda að það eigi að vera forgangsmál fyrir Ísland að reyna að sleppa billega meðan öðrum blæðir fyrir frelsið. Þvert á móti eigum við að leggja okkur fram um að vera verðugir bandamenn og leita allra leiða til þess að styðja það sem er satt og rétt og gott í þessum heimi.