Sjálfstæðisflokkurinn hefur í 95 ár staðið á traustum grunni góðra gilda. Saga lýðveldisins er sterk, árangurinn er augljós. Framfarasaga íslensks samfélags er samofin sögu Sjálfstæðisflokksins. Eftir fimm vikur verður kosið og fjárfest í stjórnmálum og hugsjónum til næstu fjögurra ára.
Ég vona að baráttan fram undan muni snúast um það sem mestu máli skiptir og við berum gæfu til að bera virðingu fyrir því að alvörustjórnmál skipta máli. Þetta er ekki leikur eða leikrit. Töfralausnir eru einmitt það; pólitískar sjónhverfingar en ekki raunveruleiki. Vinstri ringulreið er ekki svarið við þeim stóru verkefnum sem takast þarf á við. Það skiptir máli að samfélagið sé bæði víðsýnt og þjóðlegt. Það skiptir máli að standa vörð um frelsið og að við sýnum metnað í öllu sem við gerum.
Einstaklingsfrelsi í efsta sæti
Stjórnmálaflokkarnir hafa mjög ólíka sýn á einstaklingsfrelsið. Sjálfstæðisflokkurinn setur það í efsta sæti, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur af því að þannig er samfélagið best. Það er flókið að lifa í samfélagi þar sem fólk má gera mistök – en það er meðfæddur réttur að fá að gera þau. Of mörgum í samfélaginu líður ekki vel og það er viðfangsefni stjórnmálanna að finna leiðir til að það breytist.
Stjórnmálaflokkarnir hafa ólíka sýn á réttarríkið. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um að leikreglur lýðræðisins þurfi að standa ofar hagsmunum valdhafa eða réttlætistilfinningu í samfélagsumræðunni. Við höfum ólíka sýn á grundvallarhlutverk og umfang ríkisins, ríkisfjármál og efnahagsstjórn. Við viljum forgangsraða af alvöru, losa um eignir og fækka verkefnum og við viljum að kraftar einkaframtaks séu nýttir til að leysa verkefni og forgangsraða í grundvallarverkefni ríkisvaldsins í þágu almennings.
Við höfum ólíka sýn á stöðu Íslands í heiminum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystu um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og samstarf við Bandaríkin til að tryggja varnir okkar, og um EES-samninginn til þess að tryggja sem best frelsi til alþjóðlegra viðskipta. Við viljum að Ísland taki stöðu sína í heiminum alvarlega og standi með þeim ríkjum sem deila með okkur grundvallarsýn. Þetta eru aðeins nokkur af þeim grundvallaratriðum sem stjórnarflokkana greinir á um.
Efnahagsmálin eru og verða ofarlega í huga okkar allra. Vextir og verðbólga eru á niðurleið og við ætlum að klára þá baráttu. Þar eru engar töfralausnir til heldur verða aðilar sem bera ábyrgð að ganga í takt; aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld og Seðlabankinn.
Traust velferðarkerfi er forsenda öflugs samfélags. Án þess erum við hvorki sterkt né hlýtt samfélag tækifæra. Þess vegna skiptir máli að framboð á þjónustu sé fyrir hendi og að ríkið greiði fyrir hana. Ljósmæðrarekin fæðingarheimili sem verðandi mæður velja að fæða börn sín hjá eiga að vera sjálfsagt valfrelsi þeirra. Kennararekinn skóli á að vera sjálfsagður kostur foreldra. Læknarekin heilsugæsla er nú sjálfsögð vegna baráttu Sjálfstæðisflokksins. Það er vegna þessa sem Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir valfrelsi og auknu þjónustuframboði sem greitt er fyrir úr sameiginlegum sjóðum.
Það gleður mig að menntamál verði alvörukosningamál þótt það komi ekki til af góðu. Það er grundvallaratriði að við sameinumst um leiðir til að ná meiri árangri í menntakerfinu. Það leysir enginn einn en það þarf skýra forystu, samtal og alvöruaðgerðir til að bæta kerfin okkar. Þetta vitum við öll.
Hugvit einstaklingsins og nýsköpun er orðið alvöruefnahagsmál á Íslandi og grundvallaratriði í samkeppnishæfni okkar. Í heilbrigðistækni, sjávarútvegi, grænni tækni og víðar. Við eigum að tryggja að á Íslandi sé umhverfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að vera á heimsmælikvarða í þróun tæknilegra lausna.
Ég hlakka til að heyra afstöðu stjórnmálaflokka sem fara mikinn en hafa ekki tekið skýra afstöðu til grundvallarmála í íslensku samfélagi. Það er ekki nóg að tala um endurreisn, skynsemishyggju og allt fyrir alla án þess að taka afstöðu og svara því hvernig það er gert.
Það er til marks um sterkar stoðir lýðræðisins hér á landi að við tökum frelsi okkar sem sjálfsögðum hlut. En stöðnun er aðdragandi hnignunar. Frelsið er viðkvæmt og getur verið hrifsað burt á augabragði ef við sofnum á verðinum. Við megum aldrei verða værukær. Frelsið kom ekki af sjálfu sér og það er miklu auðveldara að missa það en að berjast fyrir því.
Valkostur gegn vinsældavaðli
Í lok nóvember verður gengið til kosninga. Þá munu Íslendingar nýta lýðræðislegt frelsi sitt til þess að velja sér forystufólk þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn mun nú eins og alltaf áður vera skýr valkostur þeirra sem vilja standa vörð um frelsið. Frelsi til athafna, tjáningar og atvinnu. Frelsi til að fylgja eigin sannfæringu og taka sjálf ákvarðanir um eigið líf. Frelsi til að ráða okkur sjálf. Skýr valkostur á móti þeim sem tala fyrir stjórnlyndi, hærri sköttum og óþarfa reglubyrði sem snýst um sjálfa sig.
Sjálfstæðisflokkurinn er valkostur gegn þeim sem tala aðallega fyrir því sem aflar vinsælda hverju sinni – hvort sem það eru innihaldslausar upphrópanir um aðför að fullveldinu eða glamur um meinta skynsemi sem takmörkuð skynsemi er í.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera afgerandi valkostur fyrir þá Íslendinga sem deila þeirri trú að framtíð Íslands sé best borgið á grundvelli víðsýnnar og þjóðlegrar framfarastefnu sem gæti hagsmuna okkar allra.