Þau forréttindi sem við Íslendingar búum við í samanburði við stærstan hluta mannkyns eru mikil, jafnvel þannig að okkur reynist oft erfitt að gera okkur almennilega grein fyrir þeim.
Í lok júní kom út skýrsla Institute for Global Economics and Peace yfir friðsælustu ríki heims. Ísland trónir þar efst á lista fimmtánda árið í röð. Skýrslan dregur jafnframt upp aðra, dekkri mynd af friðarhorfum í heiminum og þeirri ískyggilegu þróun að átök hafi á liðnu ári færst í aukana í 79 ríkjum heims og að dauðsföllum af völdum átaka hafi fjölgað um 96%.
Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna hafa 110 milljónir manna, einkum konur og börn, nú flúið heimkynni sín vegna átaka, óstöðugleika og hamfara, og lifa við ótryggar og framandi aðstæður, án lífsviðurværis eða matar, og 345 milljónir manna þurfa á brýnni mannúðaraðstoð að halda. Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað eftir auknum framlögum til að geta mætt aukinni neyð. Það liggur ljóst fyrir að það að hamla þessari uggvænlegu þróun heimsmála verður mikil áskorun fyrir alþjóðasamfélagið á næstu árum.
Samhæfingarstofnun S.þ. í mannúðarmálum (OCHA), Flóttamannastofnunin (UNHCR) og Matvælaáætlunin (WFP) bera hitann og þungann af mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Þær semja um mannúðaraðgengi til að mæta þörfinni fyrir mannúðaraðstoð þar sem hún er brýnust hverju sinni, veita lífsbjargandi aðstoð, vernd og mataraðstoð við ótryggar og jafnvel lífshættulegar aðstæður, í nánu samstarfi við aðra viðbragðsaðila á hverjum stað. Með því að veita framlög, annars vegar með fyrirsjáanlegum hætti og hins vegar þegar skyndileg þörf skapast vegna ófyrirsjáanlegra atburða, geta þau ríki heims sem búa við velsæld aukið getu þessara stofnana til þess að bregðast við mestu neyðinni. Í þessu samhengi blasir við að Ísland hefur skyldum að gegna, sem eitt af þeim ríkjum heims sem búa við mestu efnahagslegu velsældina og friðsælasta umhverfið.
Þær hörmungar sem dynja nú yfir víða um heim skaða konur og börn meira en aðra og hafa fleiri börn ekki þurft á mannúðaraðstoð að halda svo áratugum skiptir. Þá er aukin hætta á misnotkun, mansali, kynbundnu ofbeldi og barnahjónaböndum einn fylgifiskur hungurs og átaka. Aðilar að átökum vanvirða í auknum mæli alþjóðleg mannúðarlög, lög sem sett voru eftir síðari heimstyrjöldina sem hluti af Genfarsáttmálunum, og hafa það að markmiði að hlífa almennum borgurum við áhrifum átaka sem þeir eiga ekki beina aðild að. Það er grátlegt að árið 2023 gangi ungir menn á átakasvæðum í raðir öfgahópa til að koma í veg fyrir að fjölskyldur þeirra svelti, og að aðrir standi frammi fyrir þeim afarkostum að ganga í slíka hópa ellegar verða teknir af lífi.
Tíminn sem liðinn er frá lokum síðari heimsstyjaldar hefur svo sannarlega ekki verið laus við áföll og óréttlæti. Hins vegar blasir við að í samanburði við flest eða öll önnur skeið veraldarsögunnar hefur hann verið friðvænlegri og frjálsari. Enginn vafi er á því að þar hefur hlutverk alþjóðalaga og alþjóðastofnana skipt höfuðmáli. Þótt Ísland hafi í aldanna rás notið þeirrar miklu gæfu að verða aldrei vettvangur alvarlegra stríðsátaka, þá eru það ætíð yfirgnæfandi hagsmunir okkar að lög og réttur gildi í samskiptum ríkja, en ekki stærð og hernaðarmáttur. Okkur ber því skylda til þess að þess leggja okkar af mörkum í samstarfi við önnur ríki þegar kemur að taka þátt í viðbrögðum við atburðum sem ógnað geta stöðugleika í heiminum, hvort sem það er vegna yfirgangs ríkja á borð við Rússland gagnvart Úkraínu – eða vegna viðfangsefna á sviði umhverfis- og loftslagsmála þar sem heimsbyggðin stendur sameiginlega uppi með afleiðingar vandamála sem einungis hluti hennar á stærstan þátt í að skapa.
Á komandi árum og áratugum mun skipta máli að taka ábyrgar og skynsamlegar ákvarðanir í alþjóðakerfinu og að horft sé til langrar framtíðar. Ísland getur verið hreyfiafl til góðs og á að hafa sjálfstraust til þess að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera velmegandi og friðsælt ríki sem getur lagt sitt af mörkum.