Hvert sem litið er í heiminum taka stjórnmálin oft á sig þá mynd að þau séu leikur eða leikrit. Umfjöllun og opinber umræða um stólaleiki, stöðutöku, persónulegan metnað og leikjafræði í pólitík eru oft fyrirferðarmeiri en sá hluti sem snýr að inntaki þeirra ákvarðana og stefnumörkunar sem stjórnmálafólk er ábyrgt fyrir. Leikritið sjálft getur hæglega orðið að meginhugðarefni stjórnmálamanna ef við minnum okkur ekki reglulega á hina alvarlegu ábyrgð sem við höfum tekið að okkur fyrir hönd samfélagsins sem við höfum boðist til þess að þjóna.
Við sem höfum alist upp á Íslandi vitum að hér eigum við yndislegt samfélag. Og eftir því sem maður nær að skilja umheiminn betur öðlast djúpstætt sannleiksgildi orð skáldsins um að líf íslensku þjóðarinnar sé „kraftaverk“ og þau minna á að verkefni okkar sem berum ábyrgð á framtíð landsins er að búa svo um hnútana að þetta kraftaverk verði „eilíft“. Við getum ekki leyft okkur að taka sem sjálfgefnum þeim árangri sem íslenskt samfélag hefur náð eða verða værukær um þá dýrmætu stöðu sem okkar fámenna þjóð hefur sem fullvalda ríki, með þeim skyldum og forréttindum sem þeirri stöðu fylgja.
Leiðarstjörnurnar tvær
Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður á grundvelli þeirrar hugsjónar að vinna að framfaramálum fyrir þjóðina, þannig að allar stéttir nytu góðs af því. Leiðarstjörnurnar tvær sem skilgreindar voru standast tímans tönn; annars vegar víðsýni og hins vegar þjóðleg hugsun. Í mínum huga er þetta kjarnmikil og heilnæm innihaldslýsing á hlýju, frjóu og fallegu samfélagi.
Í störfum mínum í ríkisstjórn undanfarin tæp átta ár hef ég haft tækifæri til þess að hafa áhrif á nokkur þeirra mála sem ég tel að geti skipt miklu um það hvernig framtíð landsins mun teiknast upp fyrir komandi kynslóðir. Einkum á ég þar við nýsköpunarmál og þau sem ég sinni nú sem utanríkisráðherra.
Hugarfar
Ég trúi því að samfélag nýrra tækifæra, sköpunar og hreyfanleika sé líklegast af öllu til þess að stuðla að efnahagslegri, samfélagslegri og menningarlegri velmegun. Núverandi staða um að Ísland sé meðal þeirra ríkja í heiminum þar sem best er að stunda nýskapandi frumkvöðlastarfsemi stendur upp úr af árangri í núverandi stjórnarsamstarfi. Ég er stolt af því að hafa átt þátt í því. Í þeirri nýsköpunarstefnu sem ég lagði fyrir ríkisstjórn árið 2019 kom fram að hlúa þyrfti að fimm meginstoðum til þess að skapa góðan jarðveg nýsköpunar; markaðsaðgengi, fjármögnunarmöguleikum, laga- og stofnanaumgjörð, mannauði og hugarfari. Af þessum fimm þáttum er ég sannfærð um að hugarfarið skipti mestu.
Hugarfar skiptir líka máli í þeim verkefnum sem ég ber nú ábyrgð á sem utanríkisráðherra. Heimshluti okkar er að fara í gegnum einhver mestu hugmyndafræðilegu átök frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Slík hugmyndafræðileg átök geta hæglega leitt til upplausnar og ófriðar og víst er að Vesturlönd eiga nú þegar í höggi við andstæðing sem vill ólmur ýfa upp slíkar deilur og magna upp alla þá togstreitu sem finna má í samfélagi okkar.
Afstaða mín sem utanríkisráðherra er sú sama og Bjarni Benediktsson eldri hafði þegar hann talaði fyrir inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið; hún er sú að Ísland skipi sér óhikað í lið með þeim ríkjum sem vilja standa vörð um frelsi og mannréttindi í heiminum. Aðild að Atlantshafsbandalaginu, þátttaka í alþjóðlegu samstarfi og ómetanleg tenging okkar við Evrópu í gegnum EES-samninginn eru í senn skýrustu birtingarmyndir fullveldis okkar og mikilvægustu stoðir hagsmuna okkar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum söguna haft forystu um allt þetta og væri staða Íslands allt önnur og verri ef Ísland hefði valið að staðsetja sig með öðrum hætti. Þetta eru í mínum huga atriði sem ekki er til umræðu að gera breytingar á heldur vinna að því að standa vörð um þessa stöðu, okkur til heilla.
Sjálfstæðisflokkurinn á að vera alþjóðasinnaður, hlýr og hagsýnn. Það sem gerir okkur kleift að vera frjáls, sjálfstæð, rík og sterk er þess virði að berjast fyrir og passa upp á, sérstaklega þegar „stemningin“ er að endurskoða það.
Sjálfstæðisflokkurinn á að nálgast pólitísk viðfangsefni af hlýju og virðingu fyrir samfélagsgerðinni. Við lifum á tímum þar sem tengslarof er alvöru vandamál og einmanaleiki grefur um sig.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að hafa hugrekki til að forgangsraða og fækka verkefnum sem ríkið er að sinna, annars vegar til að ráða betur við það sem mestu skiptir, öryggisnetið og samfélagsgerðina, og hins vegar til að leysa krafta einstaklingsframtaks úr læðingi og fara betur með annarra manna peninga.
Sjálfstæðisflokkurinn á ekki heimtingu á stuðningi íslensku þjóðarinnar. Við þurfum að vinna fyrir honum á grundvelli þess að hafa góðar hugmyndir, trausta undirstöðu og djúpstæðan skilning á viðfangsefnum framtíðarinnar.
Þetta er ekki leikur eða leikrit. Verkefnið snýst ekki um að upphefja sjálfan sig eða niðurlægja andstæðinga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá skyldu að vera afgerandi valkostur fyrir þá Íslendinga sem deila þeirri trú að framtíð Íslands sé best borgið á grundvelli víðsýnnar og þjóðlegrar framfarastefnu sem gæti hagsmuna okkar allra.
Í samfélagi þar sem hvert og eitt okkar hefur hlutverk og við spyrjum okkur; hvað get ég gert fyrir samfélagið mitt? Í þessum kjarna er lykillinn að erindi Sjálfstæðisflokksins.