Einn sterkasti þráðurinn í þjóðarvitund okkar Íslendinga er að við viljum vera samfélag þar sem fólk hefur frelsi til að elska. Alþjóðlegur samanburður sýnir að óvíða er staða hinsegin fólks álitin betri en hér á landi. Þrátt fyrir þetta vitum við mætavel að því fer víðs fjarri að hinsegin fólk á Íslandi búi í fordómalausu samfélagi. Alltof oft heyrast dapurlegar fréttir af ógnvænlegum tilburðum í garð hinsegin fólks, ekki síst ungmenna. Fréttir af því að fánar sem tákna samstöðu með hinsegin fólki hafi verið skornir niður í skjóli nætur eru dæmi um þetta.
Hér á landi eigum við ennþá nokkuð í land með að losna algjörlega undan ljótum fordómum í garð fólks á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar. Engu að síður er ekki ástæða til annars en að horfa með stolti til þess að á undanförnum áratugum hefur okkur þó miðað vel á leið og nánast algjör pólitísk og samfélagsleg eining ríkir um það í hvaða átt við ætlum að róa. Samstaðan sem er svo áberandi þessa daga, þar sem fánar frelsis og fjölbreytileika blakta við hún um land allt, er til marks um að hið góða og milda, hið manneskjulega, hefur yfirhöndina.
Í þessum efnum er þó ekki göfugt markmið að vera betri en aðrir og samanburður á stöðu samkynhneigðra sýnir fyrst og fremst að lönd eiga mislangt í land. Það er eðlilegt markmið að sem flest ríki séu jöfn á toppnum. Enn er staðan þannig víðast um heim að fordómar og hatur í garð hinsegin fólk þrífst ekki bara í skjóli myrkurs, heldur er það allt umlykjandi. Þetta á til dæmis við í Rússlandi þar sem Pútín hefur gert slíka fordóma að grundvallarstoð í pólitískri hugmyndafræði sinni. Ofsóknirnar sem samkynhneigðir sæta, til dæmis í Tétníu, eru með slíkum hryllilegum ólíkindum að það lætur engan ósnortinn. Um aðstæður samkynhneigðra þar er fjallað í heimildarmyndinni „Velkomin til Tétníu“ sem sýnd var í tengslum við Hinsegin daga í Reykjavík.
Ísland leggur mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks í utanríkisstefnu sinni og ég vona mjög innilega að það sé í auknum mæli hluti af jákvæðu þjóðarstolti okkar Íslendinga að vera samfélag sem fólk fær að vera í friði frá afskiptum stjórnvalda og almennings með sína ást, kynvitund, kynlíf og hneigðir. Það er nefnilega vart hægt að hugsa sér groddalegra inngrip ríkisins í einkahagi fólks og persónufrelsi heldur en þegar það fer að hafa skoðanir á því hvernig það eigi að haga ástarlífi sínu, hvernig það fæddist eða hvern það elskar.
Því miður er staðan samt þannig víða. Í um þriðjungi ríkja er kynlíf fólks af sama kyni bannað og í sex ríkjum hefur ríkisvaldið drepið fólk fyrir þær sakir að eiga í ástarsambandi við fólk af sama kyni. Samkynhneigðir eiga mun víðar á hættu að sæta ofsóknum og grimmilegu ofbeldi sem framið er án þess að illvirkjarnir þurfi að óttast refsingu eða afskipti yfirvalda. Þá eru auðvitað ótaldar þær sálarkvalir og skömm sem hinsegin fólk þarf oft að burðast með af ótta við að hljóta útskúfun samfélagsins sökum þeirra tilfinninga sem alla jafnan eiga að vera uppspretta mestrar hamingju og gleði í lífinu. Að fólki sé refsað fyrir að njóta þess fegursta sem finnst í náttúru mannanna, að elska og vera elskaður, er argasta ónáttúra og úrkynjun.
Andstaðan við skömm er stolt. Og það er í nafni stolts sem fyrst samkynhneigðir, og nú öll þau sem eru hinsegin, hafa haldið skrúðgöngur og hátíðir ástarinnar. Þau sem fyrst stóðu í fylkingarbrjósti réttindabaráttu samkynhneigðra á Vesturlöndum háðu erfiðan og oft einmanalegan slag. Þetta var fólk sem á skilið botnlausa virðingu fyrir hugrekki sitt. Sem betur fer búum við nú í samfélagi þar sem samfélagið umvefur hinsegin fólk frekar en útskúfar það. En víða um heim er staðan skelfileg og sums staðar í okkar heimshluta reyna óvandaðir stjórnmálamenn að kynda undir fordómum gagnvart hinsegin fólki. Við þurfum því ætíð að vera á varðbergi.
Þessa fallegu daga í ágúst, þegar sólin skín á fána frelsis og fjölbreytileika, eigum við að sameinast í stolti yfir þeim árangri sem Ísland hefur náð, heita þess að gera enn betur og lofa því að láta ekki hinsegin fólk framtíðarinnar þurfa að ganga gegnum það sama og hinsegin hetjur liðinna áratuga þurftu að gera hér á landi. Því fjölbreytni þrífst best í frjálsu samfélagi. Einstaklingsfrelsið vísar veginn. Og við Íslendingar eigum að halda áfram að tala máli réttinda hinsegin fólks á alþjóðlegum vettvangi. Það mun ég gera áfram í mínu hlutverki, og með miklu stolti.