Frelsið er erfitt en yndislegt

Við lifum á tímum þegar umræða um umræðuna virðist stundum vera meira áberandi en umræðan sjálf. Mörgum finnst erfitt að fóta sig á því hála svelli sem opinber umræða er nú þegar margt sem áður þótti sjálfsagt að segja þykir ekki lengur boðlegt. Sumir kalla þetta pólitískan rétttrúnað og finnst að of langt sé gengið í þá átt að dauðhreinsa opinbera umræðu af því sem hugsanega gæti móðgað eða sært. Á hinum enda rófsins eru þau sem telja þvert á móti að ganga þurfi lengra til þess að koma í veg fyrir meiðandi tjáningu eða hatursfulla orðræðu.

Eins og hin Norðurlöndin er Ísland er í þeirri stöðu að standa framarlega í alþjóðlegum samanburði bæði þegar kemur að því að tryggja tjáningarfrelsi einstaklinga. Það er áhugavert að þessi ríki og vel varði réttur einstaklinga til að tjá sig virðist ekki hafa neikvæð áhrif á stöðu hópa sem oft er talið að þurfi að verja fyrir hatursfullri umræðu því óvíða er til dæmis staðan betri fyrir fólk sem fellur utan hefðbundinna skilgreininga á kynferði og kynvitund.

Það er gríðarlega mikil framför að í stórauknum mæli sé gerð krafa um að nærgætni og kurteisi sé gætt í samskiptum milli fólks og opinberri umræðu. Ljóðlínur Einars Benediktssonar um að þel geti snúist við atorð eitt er nokkuð sem við þekkjum eflaust öll vel á okkar eigin skinni. Jafnvel hina bestu daga er hægt að eyðileggja með eitruðum athugasemdum og óvönduðum samskiptum. En það er líka hluti af því að lifa í samfélagi manna að við erum misjöfn og þurfum öll, hvert á sinn hátt, að læra að halda okkar striki þótt að okkur sé sótt.

Öll mannréttindi eru ákaflega mikilvæg og ekki auðvelt að raða þeim í röð eftir mikilvægi. Þó verður að segjast að erfitt er að ímynda sér að hægt sé að tala um raunverulega frjálst samfélag ef frelsið til að tjá hug sinn er ríkir ekki. Það er líka á grundvelli tjáningarfrelsisins sem öll réttindabarátta hefur verið háð. Án tjáningarfrelsis er óhugsandi að við hefðum náð þeim dýrmæta árangri í íslensku samfélagi sem raun er vitni til dæmis varðandi réttindi samkynhneigðra. Og þótt þau réttindi eigi að vera sjálfsögð, og hafi alltaf átt að vera álitin sjálfsögð, þá er veruleikinn sá að það þurfti að hafa fyrir þeim. Víða um heim berjast konur fyrir réttindum sínum í löndum þar sem tjáningarfrelsi ríkir ekki og fólk er handtekið, kvalið og fangelsað fyrir að styðja málstað hins augljósa réttlætis gegn ofríki kúgunar. Í Íran hafa til að mynda á undanförnu mánuðum meira en fimm hundruð manns, þar af um sjötíu börn, verið drepin í mótmælum þar sem krafist er mannréttinda sem við tökum sem sjálfsögðum hlut.

Það verður ekki bæði haldið og sleppt. Allar framfarir, hvort sem um ræðir vísindalegar, menningarlegar, efnahagslegar eða samfélagslegar, eiga rætur sínar í frjálsri hugsun fólks og möguleikanum til þess skapa nýja hluti og tjá nýja hugsun. Frjáls samfélög eru flókin og í þeim reynir á umburðarlyndi fyrir andstæðum sjónarmiðum jafnvel þegar þau sjónarmið eru óskemmtileg, vitlaus eða meiðandi. Það er mikilvægt gildi og rótgróið í íslensku samfélagi að láta helst ekki segja okkur að þegja—þótt það væri eflaust gott ráð til sumra, þá verðum við að gæta þess að vera áfram samfélag sem er til fyrirmyndar þegar kemur að vörn tjáningarfrelsins.