Framkvæmdin á sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hefur vakið mikla reiði og heitar tilfinningar. Reiðin og vantraustið í garð ferlisins er raunverulegt vandamál, hversu sammála eða ósammála sem fólk kann að vera um forsendur þeirrar reiði. Við okkur sem höfum trú á markaðshagkerfinu blasir að tiltrú á það kerfi í heild sinni beðið mikinn hnekki á undanförnum árum og áratugum. Hér á Íslandi var stærsta áfallið vitaskuld hrun bankakerfisins í kjölfar ævintýralegs vaxtar á alþjóðlegum vettvangi og er óhætt að fullyrða að „innstæða“ fjármálakerfisins meðal almennings á Íslandi sé býsna lítil þegar kemur að trúverðugleika og trausti. Þegar upp koma spurningar og efasemdir um aðferðafræði og framkvæmd á sölu stórs hluta Íslandsbanka er því verið að ganga á tóman sjóð. Til þess að skapa aukið traust og sátt um fjármálakerfið til frambúðar er mikilvægt að þeir sem hagsmuni hafa, ekki síst þeir sem starfa á markaði, íhugi hvað þeir geti lagt af mörkum í þeim efnum. Við þurfum einnig að horfast í augu við að smæð íslensks samfélags getur haft áhrif á það hvaða aðferðir henta best í verkefnum eins og sölu á hlut ríkisins í bönkum.
Hvað varðar útboðið þá verður þó ekki hjá því litið að ríkinu tókst ætlunarverk sitt með því að selja stóran hluta bankans í einu útboði fyrir gott verð án þess að valda slíku ójafnvægi á markaði að það hefði afgerandi áhrif á verðmæti þeirra bréfa sem þegar voru skráð á markað. Hvað þetta varðar var sú aðferðafræði sem fjármálaráðherra samþykkti í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar í heiminum og þykir eðlileg framkvæmd. Hvort farið hafi verið eftir þeim forskriftum og alþjóðlegu viðmiðum í framkvæmd sölunnar er nokkuð sem Bankasýslan og framkvæmdaraðilar sölunnar þurfa fyrst og fremst að standa skil á. Þar á meðal er að mínu áliti skiljanlegt að sett sé spurningarmerki við háa þóknun til þeirra aðila sem var falin framkvæmd á sölunni. Mikilvægt er að þær stofnanir sem nú hafa það verkefni að fara yfir þá þætti fái til þess svigrúm. Slíkt aðhald frá þar til bærum stofnunum er nauðsynlegur þáttur í því að byggja upp traust.
Það þarf heldur ekki að koma á óvart að upplýsingar um kaupendur bréfanna hafi valdið uppnámi. Margir þeirra sem tóku þátt í útboðinu eru umdeildir í íslensku samfélagi. Andstæðingar ríkisstjórnarinnar og einkum Sjálfstæðisflokksins hafa því séð sér augljósan leik á borði og blanda viljandi saman bæði þeim atriðum sem raunveruleg áhöld eru um og margvíslegum rangtúlkunum, oftúlkunum og útúrsnúningum á því sem fram hefur komið um útboðið. Viljandi afbakanir til þess að koma höggi á mótherja eru aðvitað alltaf hluti af stjórnmálakarpi, og gengur fólk mislangt í slíkum málfundaæfingum, en hætt er við að trúverðugleiki minnki til langframa hjá þeim sem velja frekar að æsa sig heldur en að vanda sig í flóknum málum. Þegar kemur að gagnrýni á fjármálaráðherra fyrir það hverjir hafi „fengið“ að taka þátt í útboðinu á grundvelli þeirra hlutlægu sjónarmiða sem ríkja áttu um söluna, er umhugsunarverð spurning hvernig gagnrýnendur telja að standa hefði átt að málum. Þeir sem ganga fram með kröfur um að tilteknir nafngreindir einstkaklingar hafi ekki mátt taka þátt í útboðinu þurfa í raun að svara því hvort þeir hefðu viljað að setið væri með yfirstrikunarpenna á skrifstofu fjármálaráðherra og valið á milli verðugra og óverðugra kaupenda á grundvelli vinsælda.
Fyrir utan vantraust sem ríkir almennt varðandi fjármálakerfið þá bætist við að traust í garð stjórnvalda og stjórnmálamanna í tengslum við fjármálakerfið er lítið. Þetta þarf að horfast í augu við. Stjórnmálafólk eins og ég, sem berst fyrir skipulagi markaðshagkerfis, þarf að taka því verkefni af auðmýkt og alvöru að sannfæra fólk um að með öllum sínum kostum og göllum sé það kerfi betra en þeir valkostir sem byggjast á auknum ríkisrekstri og miðstýrðu hagkerfi.
Þar með er ekki sagt að meginhugmyndin um sölu bankanna geti ekki valdið fjaðrafoki. Það er raunverulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur um það hvort Ísland eigi yfirhöfuð að koma bönkunum úr ríkiseigu, eða hvort það sé heppilegra að íslenskt bankakerfi haldi áfram að skera sig algjörlega frá því sem gengur og gerist í kringum okkur. Og nátengd þeirri spurningu er spurningin um hvort íslenskt efnahagslíf eigi yfirhöfuð að vera markaðshagkerfi. Ég tel að það sé þess virði að tala fyrir þeirri hugmynd. Þó geri ég mér grein fyrir því að það er viðvarandi verkefni fyrir stjórnmálafólk að standa vörð um að hagsmunum alls almennings sé þjónað með því fyrirkomulagi þannig að sátt og traust geti skapast.