Að loknum kosningum hélt ég á fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins. Þar bar hæst viðbrögð bandalagsins við áframhaldandi árásarstríði Rússlands gegn Úkraínu og útvíkkun stríðsins með þátttöku norðurkóreskra hermanna, notkun íranskra vopna og að því er virðist vaxandi stuðningi Kína. Þá ræddum við aukinn stuðning bandalagsríkja við Úkraínu og vaxandi áskoranir í suðurjaðri bandalagsins og víðar.
Mið-Austurlönd, Norður-Afríka og Sahel-svæðið skipta bandalagið máli, m.a. vegna margþættra áhrifa af átökum, brothættu ástandi víða og óstöðugleika. Á sama tíma gera bæði Rússland og Kína sig sífellt meira gildandi á svæðinu. Rússland ýtir undir óróleika og óstöðugleika og hefur á sama tíma aukið hernaðarviðveru samhliða vaxandi umsvifum rússneskra málaliðahópa, sem er áhyggjuefni. Kína hefur unnið að því að auka áhrifavald sitt á svæðinu. Þá styður Íran stríðrekstur Rússlands í Úkraínu og stendur fyrir skaðlegum aðgerðum á svæðinu og innan bandalagsríkja samhliða því að halda áfram að efla kjarnavopnaáætlun sína. Kína virðist meta strategísk tengsl sín við Rússland mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr.
Reynir á okkur
Heimurinn er að breytast og það er ljóst að það mun reyna á stöðu okkar sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að núverandi staða, þar sem heimurinn inniheldur um tvö hundruð sjálfstæð ríki, er ekki hin eina mögulega skipan mála. Það er vegna þess að við höfum búið við það frá lokum síðari heimsstyrjaldar að sátt hefur ríkt um ákveðið alþjóðlegt kerfi, eins konar alþjóðlegt réttarríki þar sem meginreglan hefur verið að ríki séu jöfn fyrir alþjóðakerfinu óháð stærð og styrk. Þetta er einstakt í veraldarsögunni. Og það er ekkert víst að þessi staða verði svona um alla tíð.
Ísland hefur staðið vörð um lýðræði, mannréttindi og alþjóðalög með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi. Öflug þátttaka Íslands og stuðningur við alþjóðalög, alþjóðastofnanir og fjölþjóðasamstarf með samvinnu við önnur lýðræðisríki er mikilvægur liður í því að tryggja öryggi og fullveldi Íslands á óvissutímum. Samhliða því hefur markvisst verið unnið að því að auka þátttöku í varnarsamstarfi og efla varnarviðbúnað á Íslandi ásamt því að bæta skipulag og framkvæmd varnarmála innanlands til að mæta versnandi öryggishorfum og vaxandi spennu.
Ísland býr að því að hafa markað sér gott orðspor alþjóðlega. Það skiptir líka máli að Ísland er vinsælt ferðamannaland, að mörgum þyki vænt um íslenska menningu og sögu. Að okkur gangi vel að skapa verðmæti sem eru alþjóðlega samkeppnishæf. Það skiptir máli að í huga heimsbyggðarinnar er hið eðlilega fyrirkomulag að Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki. Mörg önnur ríki, ég nefni til dæmis Úkraínu, Moldóvu, Georgíu, Rúmeníu og í raun nágranna okkar Eystrasaltsríkin, eiga á hættu að vera álitin hluti af áhrifasvæði Rússlands, og það er til dæmis orðræðan sem á sér stað gegn því að hjálpa Úkraínu.
Skylda okkar til að taka afstöðu, í orði og á borði, er þess vegna augljós. Það er bæði lágmarkskurteisi, skylda okkar sem traustur og verðugur bandamaður og blákaldir hagsmunir okkar.
Þetta er kannski stærsta öryggismálið okkar, sem við getum haft áhrif á, að við séum til fyrirmyndar, og stöndum vörð um orðspor okkar sem blómlegt samfélag með sína eigin verðmætu menningu. Að við ráðum við að höndla okkar eigin mál og að það sé ekki bara gott fyrir okkur að við séum sjálfstæð og fullvalda, heldur að það sé gott fyrir umheiminn.
Ekkert af þessu er sjálfsagt. Ég vona að ný ríkisstjórn, hvernig sem hún mun líta út, leggi alvöruáherslu á þennan þátt í stjórn landsins og byggi ofan á þá vinnu sem átti sér stað á liðnu kjörtímabili og greint var frá í nýrri samantekt sem er aðgengileg á vef ráðuneytisins. Frumskylda stjórnvalda er að tryggja öryggi eigin borgara. Þessi nýi veruleiki okkar, veruleiki sem við höfum ekki staðið frammi fyrir á lýðveldistímanum, kallar á djúpan skilning, skýrar áherslur, aukna árvekni og aðgerðir. Þar skiptir máli að vera traustur og ábyrgur bandamaður. Það hjálpar okkur líka að selja fisk og tryggja varnir.
Það er ekki alltaf til vinsælda fallið að vera afgerandi. Ég er meðvituð um að margt í þessum nýja og hættulegri veruleika er óþægilegt og jafnvel óhugnanlegt. Ég er líka meðvituð um að það tekur tíma að melta nýjan veruleika og spurningar vakna um hvað það þýðir fyrir fámenna, frjálsa og sjálfstæða þjóð. Sömuleiðis er ég meðvituð um að ákvarðanir sem ég hef haft forystu um eru sumar erfiðar að útskýra en ég hef lagt alla áherslu á að taka ákvarðanir sem eru réttar, muni standast tímans tönn, með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.
Takk fyrir okkur
Ég vil að lokum þakka einlæglega og af öllu hjarta öllu því fólki sem hjálpaði okkur í kosningabaráttunni. Fólki út um allt land sem aðstoðaði með verkefnum, vinnu, símtölum, fjármagni og ábyrgð til að berjast fyrir hugsjónum Sjálfstæðisflokksins fyrir íslenskt samfélag. Það er ekki sjálfgefið að fólk sem hefur nóg á sinni könnu taki að sér verkefni í frítíma sínum til að taka þátt í starfinu með okkur. Fyrir það erum við ævinlega þakklát. Ég þakka fyrir stuðninginn og samstarfið hér eftir sem hingað til.