Opnunarávarp á ráðstefnunni Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Forseti Íslands. Kæru fundargestir.

Vetri hallar, vorið kallar – segir í ljóði –
en fyrir okkur sem störfum í utanríkismálum á Íslandi mætti eins segja „Vetri hallar – Pía Hansson kallar“;

…alltaf á síðasta degi vetrar komum við saman hér til þess að fara yfir stöðuna í alþjóðamálum og þá vitaskuld fyrst og fremst út frá því hvernig alþjóðamálin horfa við Íslandi, hver er staða Íslands í alþjóðlegu samhengi og hvert stefnir Ísland.

Þetta er í annað skipti sem ég tala hér sem utanríkisráðherra. Á fyrsta ári mínu í ráðuneytinu var ég „utan“ ríkis en fyrir ári síðan minntist ég á að það væri ágæt hefð að tala hér ætíð undir þeirri yfirskrift að alþjóðasamvinna sé á krossgötum þar sem aldrei sé von til þess að beinn og breiður vegur friðar og fyrirsjáanleika sé fyrir höndum.

Við eru ætíð í þeirri stöðu að það getur brugðið til beggja vona – og ég sagði þá að gott væri að hafa hugfast að stundum leiða ákvarðanir sem virðast lítilvægar til stórbrotinna afleiðinga. Og að sama skapi geta ákvarðanir sem virðast stórar í fyrstu reynst afdrifalitlar þegar allt kemur til alls.

Ég rifja þetta upp meðal annars til áminningar um mikilvægi þess að Ísland leggi ætíð metnað í framgöngu sína og ákvarðarnir á alþjóðavettvangi.

Við erum fámenn þjóð sem hefur verið sjálfstæð og fullvalda í tiltölulega skamman tíma; en við erum þó sannarlega þjóð meðal þjóða og þar sem við ætlumst vitaskuld til þess að okkur sé ætíð tekið sem slíkri, þá þurfum við líka að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir slíkum heiðurssess. 

Það er vandasamt verkefni fyrir fámenna þjóð og fáliðaða utanríkisþjónustu að gæta að því að framganga okkar á alþjóðavettvangi sé ætíð til sóma, að við getum okkur gott orðspor, gætum hagsmuna okkar og stöndum með þeim gildum sem eru grundvöllur friðar og farsældar í heiminum.

Við höfum enga aðra valkosti en að leggja okkur fram, vanda okkur, eignast góða bandamenn og geta bæði stutt þá þegar þeir þurfa á að halda og stuðst við þá þegar við þurfum á því að halda.

Og ég tel einnig ákaflega eftirsóknarvert – og í raun mikilvægt – að við sem störfum í stjórnmálum hverju sinni leggjum okkur sérstaklega fram við að forðast að gera alþjóðamál að pólitísku bitbeini innanlands. Stöðugleiki í því hvernig við nálgumst alþjóðamál getur skipt miklu máli varðandi það hvernig okkur gengur að fóta okkur og ávinna okkur traust og virðingu í alþjóðlegu samhengi.

Kæru gestir.

Á þessum vettvangi er hugmyndin að horfa gegnum gleiðu linsuna á stöðu okkar í heiminum, en ég mun þó koma inn á nokkur álitamál hér í dag, enda er það óhjákvæmilegt.

Þegar kemur að stöðu okkar Íslendinga þá finnst mér eftirfarandi eiga við.

Við erum sjálfstæð – en við erum ekki hlutlaus.
Við erum herlaus – en ekki varnarlaus.
Við erum auðmjúk – en höfum sjálfstraust.
Við erum fá – en framlag okkar skiptir máli.

Þegar kemur að því fyrsta—sjálfstæði okkar—þá er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að ef við viljum að hlustað sé á rödd Íslands þá styrkir það stöðu okkar að vera sem oftast í samfloti við þau ríki sem vilja standa vörð um alþjóðalög, mannréttindi og svipaða samfélagsgerð og við höfum hér. Þarna finnst mér skipta sérstaklega miklu máli fyrir Ísland að rækta og hlúa að því einstaka samstarfi sem við eigum við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin; allt samfélög sem eru í smærri kantinum á alþjóðavísu en standa einarðlega með þeim gildum sem skipta okkur svo miklu máli.

Í erfiðum málum er einkar mikilvægt að við vöndum okkur í hverju skrefi.

Fyrir botni Miðjarðarhafs geisar  hörmulegt stríð sem ekki sér fyrir endann á. Í þessum átökum tekur Ísland afstöðu með alþjóðalögum, mannúð og réttlæti – og við reynum að haga orðum okkur og aðgerðum með þeim hætti að það sé líklegt til þess að þoka málum frekar í rétta átt en ranga.

Við tökum einarðlega undir kröfur um vopnahlé á Gasa og verndun almennra borgara, og fordæmum allar aðgerðir sem koma í veg fyrir að lífsnauðsynleg mannúðaraðstoð berist almennum borgurum á Gasa svæðinu.

Ísland hefur líka fordæmt hryðjuverk Hamas og samúð okkar með saklausum borgurum nær vitaskuld til bæði saklausa Palestínumanna og saklausra Ísraela. Í því ástandi sem nú ríkir eru því miður ýmsir sem vilja kynda undir og magna upp það hræðilega hatur á gyðingum sem víða kraumar undir yfirborðinu.

Nánast algjör samstaða er meðal okkar vina- og bandalagsríkja um að tveggja ríkja lausn sé líklegasta leiðin til þess að stöðugleiki og friður geti orðið á svæðinu. Við höfum löngum gengið fram fyrir skjöldu í þágu þess málstaðar að Palestínumenn fái sitt eigið ríki. 

En málið er flókið og viðurkenning Íslands við sjálfstæði Palestínu dregur ekki úr skilningi okkar á réttmætum öryggishagsmunum Ísraels og eindregnum stuðningi við tilverurétt Ísraels. Varanleg lausn mun krefjast bæði hugrekkis og fórna af beggja hálfu.  

***

Kæru gestir,

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki af léttara taginu. Átök og óstöðugleiki, náttúruhamfarir og breytt loftslag hafa rekið milljónir á flótta og hundruð milljóna þurfa á neyðaraðstoð að halda. Við, sem búum við svo mikla velsæld, bæði getum og eigum að leggja okkar af mörkum og bregðast við mikilli neyð.

Í samræmi við nýsamþykkta þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands er ætlunin að framlög til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar aukist jafnt og þétt næstu ár. Við höfum einsett okkur að halda áfram á sömu braut enda sýndi nýleg jafningjarýni þróunarnefndar OECD að framlag Íslands hafi skilað áþreifanlegum árangri til hagsbóta fyrir íbúa þróunarríkja. 

Í ár eru 35 ár liðin frá því að þróunarsamvinna á vegum íslenskra stjórnvalda hófst í Malaví. Á þeim tíma hafa nær 400 þúsund manns fengið bættan aðgang að hreinu og öruggu vatni, 100 þúsund börn stundað nám í grunnskólum í bættu námsumhverfi og næstum 250 þúsund konur og börn fengið aðgang að bættri heilbrigðisþjónustu.

Ísland vinnur áfram með héraðsyfirvöldum í Úganda og á næstunni opnar sendiráð okkar formlega í Síerra Leóne, þriðja samstarfsríkinu okkar í Afríku og því fátækasta. 

***

Í varnarmálum tel ég að smám saman sé að verða vakning hérlendis um að þrátt fyrir að við séum herlaus þá höfum við skyldum að gegna í því sameiginlega verkefni að standa vaktina gegn niðurrifs- og eyðileggingaröflum; hvort sem þau koma fram í útþenslu og undirróðri sem á uppruna sinn í Kreml, eða óstöðguleika sem stjórnvöld í Teheran vilja stuðla að á viðkvæmustu stöðum heims.

Við eigum að vera verðugir bandamenn þeirra ríkja sem standa okkur næst; Bandaríkjanna, sem hafa lofað að vernda okkur, bandalagsríkja okkar í Atlantshafsbandalaginu; og einnig í því samstarfi sem við eigum við hin Norðurlöndin, Eystrasaltslöndin, Bretland og Holland á ýmsum vettvangi og í ýmsum myndum.

Ísland á stöðugt að leita leiða til þess að leggja sitt af mörkum, því það sem ræður mestu um öryggi okkar – og það sama má reyndar segja um nánast allar aðrar þjóðir – er ekki hvort við getum varið okkur eins og sjálf, heldur hvort sameiginlegar varnir og fælingarmáttur bandalagsríkja okkar dugi.

***

Kæru gestir – við eigum líka að vera auðmjúk og þekkja takmörk okkar. Það er ekki þannig að heimurinn snúist um Ísland. En þótt við séum ekki stærstu örlagavaldarnir þá getum við skipt máli ef við beitum okkur rétt.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í eðli sínu býsna ólíkt því flókna ástandi sem er uppi fyrir botni Miðjarðarhafs. Það er alveg sama hvað þeir reyna að segja spunameistararnir í Kreml og málpípur þeirra; Úkraínustríðið er eins nálægt því að vera svart og hvítt og hugsast getur í alþjóðamálum. Rússland gerði misheppnaðar tilraunir til að grafa undan lýðræði í Úkraínu, gerði svo dulbúna innrás og stal Krímskaga – en gerði svo risavaxna, ólögmæta og tilefnislausa innrás í nágrannaríki í þeim tilgangi að sölsa undir sig stærsta land Evrópu og má út menningu heillar þjóðar.

Áframhaldandi stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu er í raun mikilvægasta framlag Vesturlanda til að tryggja eigið öryggi, varnir og velsæld. Nái Rússland markmiðum sínum verður lítil þörf á vestrænu fjármagni til uppbyggingar í hernuminni Úkraínu þar sem mannréttindi og frelsi til orðs og æðis yrðu að engu höfð. Friður án frelsis er Úkraínu lítils virði og meiriháttar ógn við heimsmynd okkar. Fleiri ríki en Rússland myndu draga þann lærdóm af stríðinu að þau séu hafin yfir alþjóðalög og landamæri séu í besta falli til viðmiðunar. Kostnaður við að styðja Úkraínu nú bliknar í samanburði við þann kostnað og fórnir sem yrði að færa í alþjóðasamfélagi lögleysu og landvinningastríða.

Frá fyrstu dögum innrásarinnar hefur Ísland tekið afgerandi afstöðu – ekki bara með Úkraínu heldur með þeirri heimsmynd sem Rússland hefur ráðist á með landvinningastríði sínu og heimsvaldastefnu.

Í þeim efnum er ég ákaflega þakklát fyrir yfirgnæfandi stuðning bæði þings og þjóðar. Á næstunni geri ég ráð fyrir að þingsályktunartillaga um langtímastuðning við Úkraínu verði samþykkt. Þar skipta krónur og aurar vitaskuld miklu máli – en ég veit líka að úkraínsk stjórnvöld og almenningur í Úkraínu kann ákaflega vel að meta einarðan pólitískan og táknrænan stuðning Íslands. Orð okkar og gjörðir ráða ekki úrslitum, en þau skipta sannarlega máli.

Góðir gestir.

Við Íslendingar eigum hvorki að nota smæð okkar sem afsökun til þess að láta okkar eftir liggja, eða gorta okkur af henni þegar við leggjum eitthvað af mörkum.

Við eigum einfaldlega að vera meðvituð um að sumt getum við ekki gert vegna smæðarinnar, en sumt annað, sem hinir stærri eiga erfiðara með, getum við einmitt gert vegna hennar; í krafti smæðarinnar. 

Og þá kem ég að lokum að því – að þótt við séum fá, þá skiptir framlag okkar skipt máli.
Það á við í stuðningi okkar við Úkraínu, þróunaraðstoð, forystu í ýmsum jafnréttis- og mannréttindamálum og ýmsu öðru.

Og það átti líka við síðasta vor þegar Ísland var vettvangur fjórða leiðtogafundarins í sögu Evrópuráðsins. Sá fundur er annálaður fyrir að hafa verið sérlega vel heppnaður og áhrifaríkur; leiðtogar frá yfir fjörtíu Evópuríkjum komu til fundarins sem var einstaklega vel skipulagður, fallegur—jafnvel listrænn. Í því skipulagi nýttist bæði auðmýkt og sjálfstraust, því ofar öllu var það markmið okkar allra að standa undir þeim skyldum sem við höfum sem fullvalda ríki í samfélagi þjóðanna.

Og fundurinn skilaði áþreifanlegum niðurstöðum sem munu koma til með að skipta raunverulegu máli fyrir Úkraínu.

***

Lífskjör okkar Íslendinga eru um margt öfundsverð. Þeim hefur fleygt fram á þeim 30 árum sem liðin eru frá því að EES-samningurinn gekk í gildi. Það er engin tilviljun að útflutningur hafi vaxið hraðar frá inngöngu okkar í EES heldur en árin 30 á undan. Vel að merkja, hraðar en á 30 árum þar sem meðal annars við færðum út landhelgina. EES-samstarfið er þýðingarmesti samvinnuvettvangur Íslands á sviði utanríkisviðskipta og hefur haft víðtæk áhrif til hagsbóta fyrir Íslendinga.

Mörg okkar muna lítið eftir því hvernig íslenskt samfélag gekk fyrir sig áður en samningurinn gekk í gildi. Tækifærin sem við öðluðumst til viðskipta, búsetu, fjárfestinga og frjálsrar farar hafa bætt hag okkar Íslendinga ótrúlega.

Virk þátttaka Íslands í sterkum innri markaði EES er mikilvægur liður í að tryggja efnahagslegt öryggi okkar.

Að lokum kæru gestir.

Vetri hallar, vorið kallar.

Ég þakka fyrir þennan mikilvæga vettvang um alþjóðamál.

En ég get ekki látið hjá líða að nefna það að þetta er kannski síðasti opinberi viðburðurinn þar sem ég deili sviði með þeim góða manni sem er næstur mér á mælendaskrá.

Guðni Th. Jóhannesson lætur senn af embætti sem forseti Íslands. Ég er honum ákaflega þakklát fyrir farsælt samstarf. Hann hefur þar að auki verið sérlega góður fulltrúi Íslands á alþjóðlegum vettvangi; það má segja að margt það sem ég hef nefnt hér í dag að skipti máli fyrir utanríkisstefnuna eigi ákaflega vel við um Guðna sjálfan.

Ég þakka þér Guðni fyrir þín störf og væntumþykju fyrir samfélaginu okkar, sögu þess og framtíð og ég óska þér alls hins besta.

Takk.