Orka – lykillinn að árangri í loftslagsmálum

Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum. Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því sem skiptir einna mestu máli í því sambandi.

Nýir orkugjafar kalla á orkuframleiðslu

Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun. Ekki bara landverndarverkefni – heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.

Ég fagna því auðvitað að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda. En til að ná þeim árangri sem þetta ákall snýst um þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.

Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira. Og til að framleiða þessa orkugjafa þurfum við að framleiða meira af grænni orku.

Þau sem kjósa að líta fram hjá þessu hafa ekki svörin sem duga.

Mögulega okkar stærsta tækifæri

Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu sem snúast um að ná árangri í loftslagsmálum. Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis, og framleiðslu á rafeldsneyti.

Þessi verkefni gætu skapað mjög mikil verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú: störf, umsvif, gjaldeyristekjur og skatttekjur. Árangurinn í loftslagsmálum sem þau gætu tryggt okkur fæli í sér ómetanlega landkynningu. Að ógleymdum ávinningnum fyrir loftslagið, sem er ein stærsta áskorun mannkyns.

Við eigum að vera stórhuga og horfa bjartsýn til þess möguleika að þessi verkefni gætu verið eitt stærsta tækifæri Íslands til nýrrar verðmætasköpunar á allra næstu árum.

Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði. Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum. Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu „Græni dregillinn“, nýjum áherslum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs, og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga. Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því hvort raunhæft sé að ganga lengra, með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar.

Hugum að orkunni

Ef við ætlum að tryggja að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess að hér verði framleidd meiri orka. Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu.

Orkan verður auðvitað ekki framleidd til þess eins að skapa offramboð. Við þurfum eins og áður segir á mikilli nýrri orku að halda ef við ætlum að ná markmiðum nýrrar Orkustefnu um að verða óháð jarðefnaeldsneyti innan 30 ára og helst fyrr.

Við þurfum að horfast í augu við að ónýttir orkukostir á Íslandi eru misjafnlega hagkvæmir, og taka mið af því við okkar uppbyggingu. Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni – spurningum sem ekki er hægt að svara þegar ekki er vitað hver muni kaupa orkuna. Þetta ferli þarf augljóslega að laga og ég hef áður sagt að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar. Það er eiginlega sérstakt rannsóknarefni hvernig sá þáttur gat nánast horfið út úr ferlinu.

Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni. Þar eru tækifæri sem við eigum að nýta.

Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku. Þær tillögur voru unnar hratt en þó faglega, og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað, með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám, eða nánar tiltekið tekjumörkum.

Stóra myndin er sú að markmið heimsbyggðarinnar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fellur mjög vel að styrkleikum Íslands og samræmist bæði umhverfislegum og efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar. Tækifærin banka á dyrnar hjá okkur hvert á fætur öðru en til að nýta þau þurfum við að horfa fast og einbeitt á aðalatriði málsins, ekki fram hjá þeim.