
Nú stendur yfir vinna starfshóps um mótun stefnu í öryggis- og varnarmálum Íslands sem utanríkisráðherra skipaði í byrjun apríl. Allir flokkar sem eiga sæti á Alþingi hafa tilnefnt fulltrúa og er hlutverk samráðshópsins að fjalla um inntak og áherslur öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland. Stefnunni er ætlað að lýsa helstu öryggisáskorunum til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógnir af mannavöldum, draga fram markmið Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi, fjalla um nauðsynlegan varnarviðbúnað og getu sem þarf að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugsanlegar umbætur á laga- og stofnanaumgjörð varnarmála.
Ég sit í hópnum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en Njáll Trausti Friðbertsson er minn varamaður og hefur tekið þátt í vinnunni. Hópurinn hefur fundað í Reykjavík og fjallað um hluta þessara þátta. Þá fór samráðshópurinn ásamt fulltrúum varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins til Brussel þar sem við áttum ellefu fundi í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins, ásamt vinnukvöldverði og einum fundi með fulltrúum utanríkisþjónustu Evrópusambandsins.
Öll bandalagsríki okkar í Atlantshafsbandalaginu standa nú í þeim vandasömu sporum að endurmeta öryggis- og varnarmál sín. Þótt Ísland sé herlaust, og verði svo um fyrirsjáanlega framtíð, þá þýðir það vitaskuld ekki að tómlæti um þennan málaflokk sé valkostur. Eins og fram kom í áhugaverðri umfjöllun Wall Street Journal í síðustu viku þá hafa íslensk stjórnvöld lagt sig fram um að gera það gagn sem þeim er fært í varnarsamstarfi undanfarin ár. Má þar nefna framlag Íslands varðandi aðstöðu fyrir loftrýmisgæslu og stuðning við nauðsynlegar heræfingar á hafsvæðinu kringum Íslands og á landi ef því er að skipta. Þá markaði tímamót sú ákvörðun, sem ég tók í embætti utanríkisráðherra, að heimila kjarnorkuknúnum kafbátum að hafa viðkomu á Íslandi til þess að skipta út áhafnarmeðlimum og taka kost. Sú ákvörðun, og margar fleiri á síðustu árum, undirstrikar að við Íslendingar tökum alvarlega það hlutverk sem við gegnum bæði til að tryggja okkar eigin öryggi og að vera áreiðanlegur bandamaður við að stuðla að friði í skjóli varnarmáttar á öllu því land- og hafsvæði sem ríki Atlantshafsbandalagsins ráða yfir.
Ábyrgð okkar og skylda
Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur okkar við Bandaríkin eru grunnstoðir í öryggismálum Íslands. Við höfum skyldu til þess að gera okkar besta til að standa undir þeirri ábyrgð sem að okkur snýr. Í öllu samhengi blasir við að Ísland treystir á fórnfýsi annarra fyrir sitt eigið öryggi og krefst sú staðreynd ákveðnar auðmýktar en um leið metnaðar til þess að finna leiðir til þess að vera verðugur bandamaður þeirra þjóða sem munu þurfa að fórna meiru en við til þess að varðveita frelsi og frið í okkar heimshluta. Það er þó mikill munur á auðmýkt og undirgefni. Ísland getur lagt margt gagnlegt fram í samstarfi við önnur ríki og þar telja ekki bara krónurnar sem fara í kaup á skriðdrekum og drónum, heldur líka í margvíslega stoðþjónustu. Við njótum þess að hafa gott orð á okkur að þessu leyti, meðal annars vegna framúrskarandi starfs umsjónarfólks loftvarnareftirlits á Keflavíkurflugvelli. Um þetta þarf að standa vörð og gefa í þar sem við getum.
Á síðustu árum hefur Ísland stóraukið þátttöku sína í samstarfi mikilvægra ríkjahópa á sviði varnarmála. Þar er mest rætt um sameiginleg varnarmál Norðurlandanna en þar skiptir ekki minna máli sú ákvörðun Íslands að taka þátt í sameiginlegri viðbragðssveit tíu náinna vina- og bandalagsríkja undir forystu Breta, svokallað JEF samstarf. Á vettvangi JEF taka þátt öll Eystrasalts og Norðurlöndin ásamt Bretum og Hollendingum.
Virði mjúka valdsins
Fyrir utan þátt beinnar þátttöku í varnarsamstarfi skiptir margt annað máli þegar kemur að því að tryggja öryggishagsmuni Íslands. Mikilvægt er að við séum ætíð meðvituð um að heitstreningar og samningsskuldbindingar á friðartímum hafa tilhneigingu til þess að riðlast þegar raunveruleg ógn steðjar að. Ákvörðun ríkja um að standa saman þegar á reynir er alltaf pólitísk í eðli sínu. Ísland þarf þess vegna að gæta vel að orðspori sínu gagnvart umheiminum, við þurfum að vera reiðubúin að rétta vinaþjóðum okkar hjálparhönd alltaf þegar við getum orðið að gagni. Efling á utanríkisþjónustunni með styrkingu sendiráða og hugsanlegri fjölgun þeirra skiptir máli á þeim óvissutímum sem nú ríkja. Þá er mikilvægt að við séum meðvituð um þann mikla styrk sem felst í þeirri alþjóðlegu virðingu sem borin er fyrir íslenskri list og menningu – tugmilljónir manna um heim allan hugsa jafnan hlýlega til Íslands vegna þess að við höfum orðspor fyrir að vera samfélag sem hlúir að jafnrétti og er uppspretta kraftmikillar sköpunar á mörgum sviðum. Ef til þess kemur að Ísland þurfi að treysta á samstöðu og fórnir vina- og bandalagsríkja í okkar þágu þá er mikilvægt að standa vörð um þá inneign því það mun hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir á ögurstundu. Í þessum efnum gildir hið fornkveðna að maður tryggir ekki eftir á.
Ég sagði í ræðu minni á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar: „Tími alvörunnar er runninn upp. Tími þegar leiðtogar þurf að vera undirbúnir til þess að taka stórar ákvarðanir með hraði, en fljótfærni getur verið banvæn. Tími þegar við þurfum að gæta að sjálfstæði okkar, en þurfum meira en nokkru sinni fyrr á samvinnu við aðrar þjóðir að halda. Tími þar sem þörf er á meiri stjórnmálum og minni pólitík.“
Það er bæði skynsamlegt og eftirsóknarvert að viðhalda samstöðu í þessum málaflokki eins og hægt er. Þverpólitískt þingmannanefnd sem tekur starf sitt alvarlega er góður vísir að því.