Samstaða og traust gegn verðbólgu

Fyrir þremur árum síðan lauk sjö ára samfelldu tímabili þar sem verðbólga á Íslandi fór ekki yfir 4% á ári. Það er ágætt að rifja þessa staðreynd upp nú þegar íslenska hagkerfið hefur í þrjú ár glímt við mikla verðbólgu, sem enn á eftir að ráða niðurlögum á. Það tímabil verðbólgu sem hóf innreið sína í kjölfar heimsfaraldursins og magnaðist upp vegna óstöðugleika og ófriðar á heimsvísu er ekki séríslenskt fyrirbrigði heldur hefur verðbólga verið vandamál í samfélögum í kringum okkur en hún er sannarlega þrálátari hér. Þetta er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um þann verðbólguvanda sem við eigum við að glíma um þessar mundir; annars vegar að við vitum að verðstöðugleiki er raunhæfur möguleiki í íslenska hagkerfinu og hins vegar að hið vandasama og mikilvæga viðfangsefni að tryggja slíkan stöðugleika blasir við öllum samfélögum og gengur misvel.

Þótt verðbólgutölur hér hafi þrjóskast við þrátt fyrir viðstöðulausar vaxtahækkanir í tvö og hálft ár þá eru jákvæð merki um árangur farinn að sjást. Það er sérstaklega ánægjulegt að innlend verðbólga er loksins á niðurleið og þessi staða endurspeglast meðal annars í því að vextir hafa nú ekki hækkað frá því í ágúst. Verðbólgan mælist enn of mikil eða 8% en ef fram heldur sem horfir erum við á réttri leið. Það eitt og sér eru mikilvæg og góð tíðindi því ekki þarf að fjölyrða um skaðsemi mikillar verðbólgu, einkum gagnvart tekjulágum heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Vaxthækkanir hafa kælt hagkerfið og dregið þar með úr þenslu. Aðhald ríkisfjármála hefur aukist, en hlutverk ríkisins í baráttunni gegn verðbólgu er ekki síst að halda umsvifum sínum í skefjum á þenslutímum. Þá skiptir máli að afkoma ríkissjóðs hafi stórbatnað og við höfum náð betri árangur en nokkur hefði þorað að vona fyrir þremur árum.

En allt eru þetta áætlanir og spár. Þegar öllu er á botninn hvolft er það vitaskuld hin raunverulega niðurstaða um hvað gerist næst sem skiptir máli. Ýmsar spár, til dæmis nýleg spá Seðlabankans gera ráð fyrir að leiðin niður að 2,5% verðbólgumarkmiði gæti orðið löng og ströng. Eina raunhæfa leiðin til að ná því markmiði er að hagstjórnin og allir sem að henni koma með einum eða öðrum hætti sinni sínum þætti af trúmennsku og ábyrgð. Hvað ríkisfjármálin varðar þýðir það áframhaldandi aðhald að teknu tilliti til sveiflna í efnahagslífinu. Í mínum huga skiptir þar einnig miklu máli að skoða með gagnrýnum hætti þá útgjaldaliði sem þyngst vega ár frá ári, en einblína ekki á táknrænar stærðir eða umræðu. Stóru kraftarnir sem verka á getu ríkisins til þess að mæta þjónustuþörf almennings eru ákaflega dýrir í rekstri. Þar munar fljótt um allar þær aðferðir sem auka afköst og stuðla að bættri nýtingu fjármuna. Í þeim efnum þarf hið opinbera að leggja áherslu á að hugarfar þjónustu, ráðdeildar og nýsköpunar sé ætíð í öndvegi. Umræða um ríkisfjármál, og hlutverk þeirra gagnvart verðbólgunni gefur líka gott tilefni til almenns samtals um hvar ábyrgð hins opinbera tekur við af hlutverki einstaklinga og hins frjálsa markaðar. Í samhengi við baráttuna gegn verðbólgu og afkomu ríkisins er mikilvægt að við sjáum skóginn allan en einblínum ekki á einstaka tré. 

Það verkefni að ná verðstöðugleika á ný  er flókið. Það krefst þrautseigju og þolinmæði sem við höfum áður sýnt. Við höfum áður náð verðbólgu niður og getum það aftur. Stundum höfum við verið heppin en við vitum líka hvað þarf: Öll hagstjórnin þarf að toga í sömu átt. Standa þarf vörð um ábyrgð og aðhald í ríkisfjármálum. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að semja þannig að kostnaðarhækkanir séu ekki umfram vöxt verðmætasköpunar á vinnustund; framleiðniaukningu. Þá þurfa sveitarfélögin að sýna ábyrgð í sínum ákvörðunum. Þessu til viðbótar hljóta fyrirtækin í landinu að vera meðvituð um ábyrgð sína og þá hagsmuni sem þau sjálf hafa af því að verðstöðugleiki náist að nýjum.

Ef allir þessir aðilar telja sig geta treyst á hvern annan, og haga sér af ábyrgð, þá aukast líkurnar á því að jákvæðar spár um lægri vexti leiði til farsællar niðurstöðu; því þótt umræðan um efnhagsmál séu oft undirlögð af ýmis konar tæknilegu fræðatali, þá eru það mannlegir þættir eins og væntingar og traust sem ráða hvað mestu þegar allt kemur til alls.