
Þessa helgi fer fram fögnuður yfir því að íslenskt samfélag hafi á undanförnum áratugum tekið algjörum stakkaskiptum varðandi viðhorf til samkynhneigðra. Undanfarin rúman aldarfjórðung hefur gleðigangan verið hátíð okkar allra. Fólk á öllum aldri tekur þátt og sýnir í verki samstöðu með rétti okkar allra til þess að vera frjáls til þess að vera eins og við erum, og að fylla líf okkar sjálfra af ást og kærleik eftir því sem þarfir okkar, kenndir og hneigðir bjóða. En það sem við köllum í dag gleðigöngu var ekki alltaf grundvölluð á gleði og fögnuði, hún byrjaði sem mótmæli og réttindabarátta.
Þeir sem berjast gegn óréttlæti þurfa að færa miklar fórnir og mörg þeirra sem stóðu snemma í framlínu réttindabaráttu samkynhneigðra fórnuðu miklu til þess að forða næstu kynslóðum frá þeirri skömm og niðurbælingu sem löngum hafði verið hlutskipti homma og lesbía. Á skömmum tíma varð sú þróun hér á landi að nánast algör sátt varð um að leiðrétta þyrfti bæði það sýnilega og hið falda óréttlæti sem samkynheigðir voru dæmdir til að þola. Enginn flokkspólitískur ágreiningur var um þá kærleiksríku byltingu sem þá varð í þágu frelsis einstaklingsins og mannlegrar reisnar.
Brestir í fallegri sátt
Undanfarin ár hafa því miður komið upp greinileg merki um bresti í þeirri fallegu sátt sem almennt ríkir í samfélaginu um virðingu fyrir öllum þeim fjölbreytilegu birtingarmyndum ástarinnar sem finna má í mannlegu eðli. Að sama skapi virðast hafa komið upp brestir í samstöðu þeirra hópa sem hafa staðið í fylkingarbrjósti réttindabaráttu hinsegin fólks. Kannski hefur það gerst, sem stundum vill brenna við í tilfinningaheitri réttindabaráttu, að hópar sem áður leituðustu við að finna sem flesta samherja í baráttunni hafa snúið sér að því að leita að óvinum.
Þegar ég starfaði með Sambandi ungra sjálfstæðismanna fyrir næstum tuttugu árum tók ég þátt í því að ganga með félögum mínum í gleðigöngunni. Þetta var á þeim tíma þegar gleðigangan var smám saman að vinna sér sess sem miklu meira en réttindabarátta ákveðinna hópa. Hún var að breytast í sameiginlegan fögnuð okkar allra yfir ást, kærleika og frelsi.
Það vakti ekki fyrir okkur í SUS að vera „vók“ og við vorum ekki að taka þátt til þess að undirstrika einhverja sérstaka „góðmennsku.“ Fyrir okkur vakti einkum tvennt. Annars vegar að standa með djúpstæðasta frelsismáli sem hægt er að hugsa sér; frelsinu til þess að fá að vera stoltur og sterkur einstaklingur á sínum eigin forsendum. Hins vegar að undirstrika að jafnvel þótt ákveðið afturhald og jafnvel fordómar hafi stundum tengst (stundum að ósekju, stundum með réttu) íhalds- og hægrimönnum í stjórnmálum, þá væri enginn brestur á Íslandi í samstöðunni með þeim sem tekist hafði að toga þjóðina í átt til aukins skilnings, frelsis og kærleika. Og ekki má heldur gleyma því að fólkið sem staðið hefur í brjósti réttindabaráttu hinsegin fólks hefur sjálft sýnt samborgurum sínum skilning og umburðarlyndi þegar hlutir hefðu að ósekja mátt ganga hraðar.
Vörumst að vera værukær
Ísland getur verið stolt af því að stærsti sameiginlegi viðburður þjóðarinnar snýst um skilning, kærleika og að frelsa fólk undan skömm og niðurbælingu. Því miður er ekki hægt að slá því föstu að við höldum þessari stöðu. Sú hætta er viðvarandi að stemmningin snúist til afturhalds, kúgunar og fordæmingar. Víða á Vesturlöndum eru óvandaðir stjórnmálamenn að gera tilraunir hér og þar til þess að vopnvæða fordóma gegn hinsegin fólki, og því miður kennir sagan okkar að bakslagið getur orðið ofsafengið. Hér á Íslandi ættum við að þó að vera nokkuð vel bólusett gagnvart alvarlegri afturför í þessum efnum en það þýðir þó ekki að það sé óhætt að vera værukær.
Leiðtogar í okkar samfélagi þurfa að halda áfram að sýna hug sinn í verki og forvígisfólk hagsmunabaráttu hinsegin fólks þarf að forðast að leita uppi óvini. Er þar full ástæða til að taka undir orð Páls Óskars Hjálmtýssonar í fréttum á föstudaginn að „við getum bara víst lifað saman í þessum heimi, ekki í sundur.“
Það er nákvæmlega þetta viðhorf sem undirstrikar að fordómaleysi gagnvart hinsegin fólki sé hluti af dýpsta kjarna þess að vera Íslendingur.