Það sem hefur gengið vel undanfarin ár átti sinn þátt í því að sú ríkisstjórn sem nú situr endurnýjaði umboð sitt í kosningum fyrir þremur árum. Við höfum náð árangri víða og heilt yfir hefur gengið vel. Viðspyrna hagkerfisins hefur verið hraðari en nokkurn óraði fyrir og hagvöxtur var árið 2022 sá mesti í hálfa öld. Afleiðingin er að afkoma ríkissjóðs hefur batnað miklu hraðar en spár gerðu ráð fyrir og skuldahlutföll eru lægri en nokkur þorði að vona.
Kaupmáttur hefur sömuleiðis vaxið hratt. Nýjar stoðir útflutnings, t.d. í hugverkiðnaði og fiskeldi hafa aukið kraftinn í hagkerfinu og í samfélaginu, sem var kröftugt fyrir. Þessu, ásamt umfangsmikilli ferðaþjónustu, hefur fylgt gríðarlega hröð fólksfjölgun. Allt hefur þetta tekist án þess að umsvif ríkisins hafi vaxið svo einhverju nemur hraðar en önnur umsvif í hagkerfinu. Nánast alla aukningu ríkisútgjalda á mann frá árinu 2017 má rekja til launahækkana og verðbólgu. Íslendingar búa við minni skattbyrði nú en fyrir sjö árum, nokkuð sem við Sjálfstæðismenn getum verið stoltir af.
Verðum að gera betur
En við getum ekki, höfum ekki og munum ekki líta undan þeim fylgifisk sem of mikil verðbólga og alltof háir vextir eru. Það er óásættanlegt ástand. Það er og á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að stuðla að því að verðbólgan minnki svo vaxtastigið geti fylgt í kjölfarið. Það er þolinmæðisverk, en við sjáum árangur eins og verðbólgumælingin í ágúst, sem var undir væntingum, ber með sér. Við þurfum að halda áfram.
Að þessu leyti skiptir trúverðugleikinn miklu máli. Að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi ætti að slá á verðbólguvæntingar og þar með verðbólguna sjálfa.
Ríkisumsvif og afskipti
Við Sjálfstæðismenn getum ekki horft framhjá því að á Íslandi eru umsvif ríkisins of mikil, óháð því hversu mikið eða lítið þau hafa vaxið. Við höfum ótal tækifæri til þess að draga úr umsvifum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Við eigum að hætta að sinna starfsemi sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna eins og bankaþjónustu, verslunarrekstri, póstþjónustu og tryggingarþjónustu.
Af sömu hugsun leiðir að ríkið sjálft þarf ekki og á ekki að veita alla þjónustu sem ríkið þó greiðir fyrir. Þekkingin er nefnilega dreifð á alla.
Miðstýring er ákvörðun um að nýta ekki alla þekkingu og hugvit sem í boði er. Þess vegna styður Sjálfstæðisflokkurinn einkarekstur.
Við verðum sömuleiðis að nýta fjármuni skattgreiðenda betur með sameiningum stofnana, aðhaldi í ríkisfjármálum og að skerpa á forgangsröðun útgjalda. Það er einfaldlega sjálfsögð kurteisi að fara vel með annarra manna fé.
Uppstokkun
Hið opinbera þarf með trúverðugum hætti að stokka upp í ríkisrekstri og það þarf að ná þeim skilaboðum til fólks að það sama gildir í ríkisrekstri og öðrum rekstri og þar af leiðandi er það skynsamlegt og eðlilegt að taka til í honum eins og öðrum rekstri. Það er einungis þannig sem við getum hagrætt og bætt gæði þjónustu hins opinbera. Það ætti ekki að vera umdeilt markmið, að ríkisrekstur sé eins hagkvæmur og mögulegt er og gæði rekstrar séu sem best. Með öðrum orðum að verkkaupi, þ.e. almenningur, fái sem besta vöru eða þjónustu.
Það má einfalda, bæta og hagræða í rekstri ríkisstofnanna. Við eigum ekki að reka yfir 160 stofnanir í landi með íbúafjölda á við bæ á meginlandinu. Þetta blasir við. Þess vegna eigum við að sameina stofnanir svo um munar. Sameiningar eiga að hafa þau markmið að hagræða annars vegar og bæta gæði hins vegar. Það fer saman í öllum samrunum. Þetta gekk eftir við niðurfellingu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Enga aðstoð var þó að fá frá þingönnunum Miðflokksins í því máli, frekar en öðrum einföldunarmálum sem ég haft lagt fram og klárað.
Hvers vegna er það nánast alltaf þannig að sameinungum stofnana hjá hinu opinbera hefur fylgt að það sé sjálfstætt markmið að starfsmannafjöldi haldi sér. Hvaða hagsmunir hafa orðið ofan á? Af þessari ástæðu hefur hagræðing verið takmörkuð og samruni einungis orðið að forminu til. Þetta er mjög óskynsamlegt og vonandi liðin tíð. Ríkið er fyrir fólkið, en ekki fólkið fyrir ríkið. Um þetta ætti borgaralega sinnað fólk að vera sammála.