
Frá sköpunarkraftinum stafa allar framfarir mannkyns. Það er hann sem keyrir áfram þekkingarleit og uppgötvanir í vísindalegu umhverfi. Sama afl knýr nýsköpun og frumkvöðlastarf þar sem þekking er hagnýtt og gerð að markaðshæfri vöru sem bætir lífsgæði í samfélaginu – og sköpunarkrafturinn er að sjálfsögðu uppspretta listsköpunar og menningar líka – þar sem við upplifum dýpstu og fegurstu birtingarmyndir þess sem mannsandinn hefur upp á að bjóða.
Andstaðan við sköpunarkraftinn er eyðileggingarmáttur illskunnar. Dæmi um hann sjáum við nú í innrás Rússlands í Úkraínu. Í heimsmynd Pútíns ríkir ekki gleði, sköpun og fegurð – heldur bæling, eyðilegging og ótti.
Samfélög þar sem sköpunargleðin fær að njóta sín eru vissulega að mörgu leyti flókin og erfið. Í slíkum samfélögum þurfa valdahafar að þola gagnrýni, bæði sanngjarna og ósanngjarna; þar má gera grín að hverjum sem er og segja nánast hvað sem er. Þar má fólk gera tilraunir sem mislukkast, búa til ljót eða fáránleg listaverk og halda fram heimskulegum hugmyndum. Það er allt hluti af hinni hlykkjóttu leið frelsisins fram á veg. Upp úr samsuðu allskonar misgóðra hugmynda og pælinga kemur að endingu snilldin í vísindum, fegurðin í listinni og framfarirnar í atvinnulífinu.
Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp samfélag þar sem sköpunarkrafturinn fær að blómstra. Við höfum líka haft frið til að gera það. Í því felast mestu verðmæti okkar og lykillinn af því hvernig við getum viðhaldið góðu samfélagi hvað sem á bjátar.
Verðmætt vald
Í frjálsum heimi er penninn sannarlega máttugri en sverðið. Það er mjúka vald sem hefur mest áhrif. Það er valdið sem sannfærir en kúgar ekki, laðar að sér en hneppir ekki í fjötra. Og mjúka valdið á alþjóðasviðinu er þess eðlis að jafnt stórar þjóðir sem smáar geta beitt því. Ísland hefur því sannarlega notið góðs af þeim heimi sem virðir hið mjúka vald.
Í því samhengi er rétt að benda á að þrátt fyrir sína efnahagslegu og hernaðarlegu yfirburði hafa Bandaríkin einkum náð sínu fram undanfarna áratugi með því að beita mjúkvaldinu. Það er mun ódýrara að framleiða bíómyndir heldur en flugmóðurskip. Mjúkvaldið er því ekki bara fallegra; það er líka hagkvæmara.
Í þessu ljósi er það áhyggjuefni og vonbrigði að núverandi stjórnvöld í Washington virðast litla virðingu bera fyrir neins konar valdi öðru heldur en eyðileggingarmætti og efnahagsstyrk. Á þeim sviðum blasir við að Ísland hefur lítið vægi.
Að „neyða gagnaðilann að samningaborðinu“ er nálgun sem stundum á við í viðskiptalífinu. Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á að alþjóðasamskipti lúta ekki sömu lögmálum og fyrirtækjarekstur. Í alþjóðasamskiptum er skiptimyntin völd og áhrif og hagur vel meinandi stjórnvalda í ólíkum löndum fer jafnan saman.
Ef við hugsum um muninn á hvert hugur almennings í Evrópu eftir fall Sovétríkjanna hefur stefnt þá segir það sína sögu að ekkert Vestur-Evrópuríki snerist til austurs en nánast öll ríki sem áður voru undir járnhæl Kremlarvaldsins hafa sótt hart að taka þátt í samstarfi Vesturlanda. Frelsið er nefnilega yndislegt og er uppskrift sem virkar á meðan kúgun og undirgefni er uppskrift sem engin manneskja sækist eftir sjálfviljug, þótt stundum sætti fólk sig við sitthvað í þágu öryggis.
Stöndum saman á útivelli
Heimurinn er að breytast og það er ljóst að það mun reyna á stöðu okkar sem sjálfstæð og fullvalda þjóð. Í 80 ár höfum við búið við eins konar alþjóðlegt réttarríki þar sem meginreglan hefur verið að ríki séu jöfn fyrir alþjóðakerfinu óháð stærð og styrk. Fullkomið er það ekki en þetta er einstakt í veraldarsögunni.
Ísland hefur staðið vörð um lýðræði, mannréttindi og alþjóðalög með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi í samvinnu við önnur lýðræðisríki sem er mikilvægur liður í því að tryggja öryggi og fullveldi Íslands á óvissutímum. Við tökum þátt og erum háð alþjóðlegu viðskiptakerfi sem hefur gert okkur kleift að selja vörur og þjónustu til útlanda. Fyrir útflutningsdrifna smáþjóð er þróunin sem við horfum upp á alvarleg. Þegar kemur að utanríkismálum hljóma samstilltir strengir best. Á útivelli erum við öll í sama búningi og sama liði. Það mun skipta raunverulegu máli að við þekkjum gildismat okkar, fyrir hvað við stöndum, hvað skiptir okkur mestu máli sem samfélag og í samfélagi þjóða.
Ísland býr að því að hafa markað sér gott orðspor alþjóðlega. Það skiptir líka máli að Ísland er vinsælt ferðamannaland, að mörgum þyki vænt um íslenska menningu og sögu. Að okkur gangi vel að skapa verðmæti sem eru alþjóðlega samkeppnishæf. Það skiptir máli að í huga heimsbyggðarinnar er hið eðlilega fyrirkomulag að Ísland sé sjálfstætt og fullvalda ríki. Það er ekki raunveruleiki allra ríkja, því miður. Í þessu mjúka valdi Íslands er að finna mikilvæga stoð í öryggi okkar.
Ef við ætlum að standa vörð um orðspor okkar skiptir máli að velja rétt og vera ekki skammsýn. Hér eftir sem hingað til á Ísland að velja að hafa samleið með þeim ríkjum sem eru málsvarar raunverulegs frelsis og standa vörð um mannréttindi og tækifæri til þess að eiga í opnum og hindranalausum viðskiptum þvert á landamæri.