Gefandi tími

Þann 11. janúar síðastliðinn voru þrjú ár liðin frá því að mér hlotnuðust þau forréttindi að taka við embætti ráðherra. Tíminn er afstæður og það er einhvern veginn bæði langt og stutt síðan.

Langt síðan af því að þessi tími er svo stútfullur af upplifun að hún ætti varla að geta komist fyrir á þremur árum. En stutt síðan af því að tíminn hefur liðið svo hratt.

Gildi stöðugleikans

Eitt af því sem stendur upp úr þegar ég staldra við og hugleiði þennan tíma er gildi stjórnmálalegs stöðugleika. Ný ríkisstjórn tók við í ársbyrjun 2017 eftir að kosningum hafði verið flýtt vegna afsagnar forsætisráðherra. Haustið eftir voru síðan í annað sinn á tveimur árum haldnar óvæntar kosningar vegna stjórnmálalegs óstöðugleika (eða kannski óðagots). Ný ríkisstjórn tók því enn og aftur við á miðjum vetri. Hvort tveggja – óvænt stytting kjörtímabils og valdataka á miðjum vetri – er til þess fallið að tefja framgang verkefna. Þótt stundum sé gantast með að best sé að stjórnmálamenn geri sem minnst er ljóst að þetta tafði ýmis framfaramál og mikilvæga stefnumótun. Rammaáætlun um vernd og nýtingu virkjanakosta er eitt dæmi af mörgum.

Grundvallargildin okkar

Ég hef haft grundvallargildi sjálfstæðisstefnunnar að leiðarljósi í nálgun minni á málaflokka ráðuneytisins. Stóraukin útgjöld úr ríkissjóði í mína málaflokka hafa aldrei verið efst á blaði hjá mér þó að auðvitað komi fyrir að aukin framlög séu réttlætanleg. Þetta hefur stundum gefið stjórnmálamönnum á vinstri vængnum sóknarfæri gagnvart mér og þá spyrja þau: „Af hverju hækka ekki framlögin hér? Hvers konar metnaðarleysi er þetta gagnvart málaflokkunum?“ Ég hef skrifað um það áður hér að útgjaldavöxtur er ekki mælikvarði á árangur. Gagnrýni af þessu tagi truflar mig ekki af því að það er skýrt markmið að hafa hemil á útgjaldavexti ríkissjóðs.

Einföldun regluverks er annað skýrt markmið. Við höfum þegar stigið eftirtektarverð skref með því að afnema ýmsar óþarfa kröfur, lög og reglugerðir og erum að greina fleiri möguleika, meðal annars í samstarfi við OECD, Efnahags- og framfarastofnunina. Á sama tíma getur verið réttlætanlegt að auka kröfur og eftirlit á sumum sviðum. Ég stóð t.d. að því að gera kröfur til fyrirtækja í ferðaþjónustu um að þau setji sér öryggisáætlanir. Kannski þurfum við að ganga enn lengra í þeim efnum. Þarna er vandrataður meðalvegur og það sem getur afvegaleitt okkur er illa ígrundaðar kröfur um að ríkið beri ábyrgð á öllu sem gerist í landinu. En ríkið getur ekki borið ábyrgð á öllu sem gerist og á ekki að gera það. Ef við missum sjónar á þessu grundvallaratriði mun fara illa fyrir okkur.

Langtímastefnumótun stórra málaflokka

Í skjóli langþráðs stjórnamálalegs stöðugleika höfum við getað leyft okkur að hugsa til langs tíma. Við settum af stað langtímastefnumótun í þremur grundvallarmálaflokkum: nýsköpun, ferðaþjónustu og orkumálum.

Nýsköpunarstefnan hefur þegar verið kynnt. Sumar aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd hafa verið kynntar og fleiri eru væntanlegar. Að mínu mati gera fá verkefni stjórnvalda eins stórt tilkall til þess að vera talin mikilvægust enda hvílir framtíðarvöxtur verðmætasköpunar okkar að verulegu leyti á því að vel takist til.

Ný framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustu til ársins 2030 hafa líka verið unnin og kynnt.

Aðgerðaáætlun á grundvelli hennar hefur verið í mótun í vetur og verður kynnt fyrir vorið.

Jafnvægisás ferðaþjónustunnar er líka mikilvægt nýtt verkfæri, stjórnunartæki fyrir þessa undirstöðuatvinnugrein, sem gerir stefnumótunina markvissari og hefur raunar vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Langt er síðan orkumál hafa verið eins mikið í brennidepli og á þessu kjörtímabili. Umræðan um þau hefur dýpkað á kjörtímabilinu, sem gagnast mjög þeirri þverpólitísku vinnu sem nú stendur yfir um orkustefnu fyrir Ísland.

Stór verkefni fram undan

Ég hef í þessi þrjú ár gefið mig alla að verkefnunum, lært mikið, náð árangri, mjakað málum áfram með umræðu, ákvörðunum, fundum, samvinnu, rökræðu og stundum átökum – á grunni þess sem ég trúi á.

Það sem gefur mér mest er að ræða við þúsundir Íslendinga um allt land um hin margvíslegu málefni sem skipta hvern og einn mestu, og eiga síðan í kjölfarið möguleika á að stuðla að úrbótum og framförum. Það eru óviðjafnanleg forréttindi.

Fram undan eru mörg stór verkefni sem ég hlakka til að takast á við.