Leiðarljós til lausnar á vandasömu verkefni

Ég vil leggja áherslu á að það er ekki á minni stefnuskrá að við tökum allt í einu upp á því að hundsa með öllu niðurstöður Mannréttindadómstólsins, eins og mér finnst sumir daðra við að við ættum að gera. Það væri óheillaskref og slíkt tal er óráðlegt. Fullvalda þjóð heldur þó að sjálfsögðu fram sínum ýtrustu hagsmunum.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, sem kveðinn var upp þriðjudaginn 12. mars, er bæði fordæmalaus og efnislega þess eðlis að okkur væri óljúft að láta ekki reyna til fulls á þær línur sem þar voru lagðar. Ákvörðun um það kallar þó á ítarlegt og yfirvegað hagsmunamat.

Markmiðin með stofnun nýs dómstigs voru skýr: að bæta dómskerfið, tryggja vandaða og réttláta málsmeðferð og sjá til þess að æðsti dómstóll landsins, Hæstiréttur, gæti sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi dómstóll.

Löggjafinn ákvað að við fyrstu skipan dómara við hið nýja dómstig skyldi ráðherra bera tillögur sínar undir Alþingi. Með aðkomu tveggja af þremur greinum ríkisvaldsins yrði byggt undir traust til dómstólsins og réttarkerfisins. Þriðja grein ríkisvaldsins, dómsvaldið, hefur síðan einnig sagt álit sitt á henni með því að dæma hana lögmæta þrátt fyrir annmarka.

Í mínum huga er augljóst að stofnun Landsréttar var mikilvægt heillaspor fyrir réttarkerfi landsins en auðvitað dylst engum að staðan sem upp er komin vegna dóms Mannréttindadómstólsins er ekki góð, hvorki fyrir dómstólinn né réttarkerfið. Hún kallar á ígrundaða yfirlegu og að brugðist sé við henni af festu og yfirvegun.

Í vandmeðförnu máli eins og þessu skiptir máli að staðreyndum sé haldið til haga. Í ferlinu sem löggjafinn hafði lagt upp með var það strax ákveðið viðvörunarmerki um að lúkning þess yrði flókið úrlausnarefni þegar hæfisnefndin skilaði ráðherra niðurstöðu þar sem nákvæmlega 15 voru taldir hæfastir í þau 15 sæti sem skipa átti í – og þar af aðeins fimm konur.

Ráðherra bar skylda til að bera tillögur sínar undir Alþingi, hvort sem þær væru í samræmi við niðurstöðu hæfisnefndar eða ekki. Ráðherra leitaði því eftir viðhorfi Alþingis til lista dómnefndarinnar og fékk þau skilaboð frá forystumönnum flokkanna að listinn yrði ekki samþykktur óbreyttur. Byggðu þau sjónarmið aðallega á ójöfnum hlut kynjanna. Við úrvinnslu málsins jók ráðherra vægi dómarareynslu við mat á umsækjendum og lagði breyttar tillögur fyrir Alþingi, sem samþykkti þær.

Forseti Íslands gerði rannsókn á málinu umfram skyldu og staðfesti svo niðurstöðu Alþingis með því að skrifa undir skipunarbréf þeirra 15 einstaklinga sem Alþingi hafði samþykkt.

Í kjölfar þessa reis ágreiningur sem kom til kasta dómstóla. Hæstiréttur kvað upp úr um að ráðherra hefði ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægilega áður en hann lagði tillögur sínar fyrir Alþingi og að atkvæðagreiðsla þingsins um þær hefði ekki verið lögum samkvæmt.

Hálfu ári síðar kvað Hæstiréttur upp dóm þess efnis að skipan allra dómaranna við Landsrétt væri lögmæt. – Þeim dómi var skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem komst að þeirri niðurstöðu sem skapar þá vandasömu stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Niðurstaðan stangast eins og áður segir á við þá niðurstöðu Hæstaréttar að skipan dómaranna hafi verið lögmæt. Dómar Mannréttindadómstólsins hafa ekki bein réttaráhrif á Íslandi. Það þýðir að þeir eru ekki bindandi að íslenskum rétti. Niðurstaðan hefur því engin sjálfkrafa áhrif á úrlausnir íslenskra dómstóla eða stöðu dómsvalds á Íslandi. Um þetta er ekki deilt.

Hins vegar felst í þjóðréttarlegri skuldbindingu Íslands að stjórnvöld fari yfir niðurstöðuna og grípi eftir atvikum til ráðstafana til að leiðrétta það ástand sem talið er valda viðkomandi broti. Við höfum lögfest að við munum hlíta endanlegum dómi dómstólsins í hverju því máli sem við erum aðilar að. Verkefnið er að finna leið til þess.

Ég vil leggja áherslu á að það er ekki á minni stefnuskrá að við tökum allt í einu upp á því að hundsa með öllu niðurstöður Mannréttindadómstólsins, eins og mér finnst sumir daðra við að við ættum að gera. Það væri óheillaskref og slíkt tal er óráðlegt. Fullvalda þjóð heldur þó að sjálfsögðu fram sínum ýtrustu hagsmunum. Ákvörðun um beiðni um endurskoðun yfirdeildar er að sjálfsögðu tekin með það í huga. Og sjálfsagt er að hafa skoðun á dóminum.

Í þessu máli öllu þarf að eiga sér stað yfirvegað hagsmunamat með heildarhagsmuni íslenskrar stjórnskipunar og réttarkerfisins í huga. Ég hef undanfarna daga fundað með ýmsum aðilum, rætt við sérfræðinga og fylgst með umræðum lögfræðinga og stjórnmálamanna. Flestir eru sammála um að lausnirnar séu hvorki einfaldar né augljósar. Mitt leiðarljós er að nálgast verkefnið af yfirvegun til að tryggja virkni dómstólanna, réttaröryggi í landinu og traust á dómskerfinu.