,,Þess vegna getur verið yfirborðskennt að tala um frelsi frá þessu og hinu; raunverulegt frelsi er ætíð frelsið til þessa og hins; frelsi til að hugsa, tjá sig, fara þangað sem maður vill, elska þann sem maður kýs, gera það sem hugur manns stendur til, vera óútreiknanlegur og laus við samfélagslegar kröfur um hlýðni og undirgefni. Slíkt frelsi getur aðeins einstaklingurinn sjálfur fundið fyrir sjálfan sig ef hann hefur hugrekki til.

Stjórnvöld geta ekki gert fólk frjálst, einungis skapað fólki jarðveg til að geta öðlast frelsi og halda í skefjum þeim öflum sem vilja takmarka það, hvort sem það er í formi utanaðkomandi ógnar, freklegra stjórnvalda eða ægivalds ofstækis eða hagsmunafla. Og þegar öllu er á botninn hvolft þá er það hin raunverulega og helgasta skylda allra þeirra stjórnmálamanna sem raunverulega trúa á frelsi einstaklingsins.”