
Sú staða sem uppi er í stjórnmálum á Íslandi er raunverulegt áhyggjuefni. Þetta sjá líklega allir og við sem eigum sæti á Alþingi gerum það. Víða um heim hafa að sjálfsögðu krísur komið upp í stjórnmálum til lengri eða skemmri tíma. Í flestum tilfellum nær yfirvegunin undirtökum á ný. Fólk róast, lítur í eigin barm ásamt því að tjá óánægju sína með aðra, fer yfir málin, setur egóið til hliðar og minnist þess að allir þeir sem bera ábyrgð í samfélagi eiga að gera það í þágu annarra. Þegar samskipti og málefnaágreiningur lenda í hnút þá er það mannleg tilhneiging að vilja toga fastar, en lausnin felst alltaf í lagni frekar en afli.
Í veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar felst grundvallarbreyting og inn í það eru byggðir margvíslegir óvissuþættir. Málið er stórt og varðar mikla hagsmuni. Það er ofureðlilegt að slíkar breytingar mæti andstöðu og efasemdum. Slík mál þurfa tíma til þess að hægt sé að skoða þau með gagnrýnum hætti og draga úr líkum á því að fljótræði leiði til ófyrirséðra afleiðinga. Ríkisstjórnin tók hins vegar ákvörðun um að leggja málið seint fram á vorþingi, gefa einungis svigrúm í eina viku í samráðsgátt áður en til stóð að keyra það í gegnum Alþingi og eru vinnubrögðin í þinginu efni í lengri grein en þeim hefur verið verulega ábótavant. Óðagot og skeytingarleysi um lýðræðislega verkferla er einkum það sem hefur gert þetta mál að því pólitíska stórmáli sem nú hefur orðið. Hlutverki Alþingismanna, í minnihluta og óbreyttra þingmanna í meirihluta, á að vera sýnd meiri virðing en þetta.
Það er síðan grundvallaratriði í stefnu Sjálfstæðisflokksins að við teljum að hóflegri skattar skili hærri skattgreiðslum til ríkissjóðs en mjög háir skattar. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni og hefur sýnt sig í framkvæmd um allan heim. Á bakvið þessa nálgun fylgir sú sannfæring að þekking sé dreifð um allt þjóðfélagið en safnist ekki fyrir hjá hinu opinbera. Dreifð þekking skilar fjárfestingum og betri framkvæmd í atvinnulífinu sem aftur drífur hagvöxt og velsæld. Fyrir þá sem eru í vafa, þá má gjarnan horfa til þess að hugmynd Guðmundar Fertram um nýja nýtingu á sjávarafurð er að skila tugum milljarða í hagkerfið. Meðal fyrstu fjárfesta í því verkefni voru útgerðarmenn í gamla kjördæminu mínu, Norðvesturkjördæmi.
Hroki veit á hrun
Sú staðreynd að ríkisstjórnin, og einkum forsætisráðherra, hafa lagt minni rækt við skyldur sínar gagnvart þinginu en tíðkast hefur, er dýr. Orðfærið sem sumir ráðherrar hafa haft um valdaskipti í landinu benda líka til þess að hin nýja ríkisstjórn nálgist hlutverk sitt með öðrum hætti en ég átti að venjast í þau átta ár sem ég sat í ríkisstjórn. Vissulega felast völd í ráðherraembættum, en ég tel hyggilegra að líta svo á að í tækifæri til að gegna ráðherraembætti felist fyrst og fremst möguleiki til þess að hafa áhrif. Því betur sem gengur um að sannfæra fólk um ágæti hugmynda þeim mun meiri og meira langvarandi áhrif er hægt að hafa. Þótt valdi fylgi sá valmöguleiki að þvinga eigin ákvörðunum ofan í aðra þá skilar það oftast ekki árangri nema til skamms tíma. Betra er að vera hógvær með lítillátum en deila feng með dramblátum.
Enginn vafi er að ríkisstjórnin hefur umboð til að stjórna á Íslandi og eru réttmæt stjórnvöld. Þau kalla sig sjálf valdhafa, og þótt það sé vissulega ekki röng skilgreining, þá passar hún ekki vel inn í þær hefðir og venjur sem ríkja á Íslandi eða í öðrum þroskuðum lýðræðissamfélögum. Slíkt orðfæri getur meira að segja reynst vera fyrirboði lýðræðislegrar hningnunar, ef ekki er farið með gát. Það er ekki tilviljun að nafn Katrínar Jakobsdóttur hafi borið oft á góma síðustu daga, þ.á m. mína, því þótt hún hafi vissulega verið valdamikill og vinsæll forsætisráðherra þá skoraðist hún aldrei undan þeirri fyrirhöfn að rækta samband við kollega sína á Alþingi, hvort sem viðraði vel eða illa í pólitíkinni. Þegar þáverandi minnihluti taldi sig eiga réttmæta heimtingu á því að ríkisstjórnin tæki fótinn af bensíngjöfinni í tilteknum málum, þá var almennt fyrsti kostur að reyna að hlusta en ekki þjösna málum í gegn í krafti meirihluta. Þessi aðferð er tímafrekari og getur reynt á þolinmæði meirihlutans, en hún er betri en sú vegferð sem nú er farin. Í 66 ár hefur öllum forsætisráðherrum tekist að ljúka þingum með samningum á grundvelli samtala og málamiðlana. Og ýmislegt hefur gengið á sl. 66 ár.
Það er hættuleg þróun þegar stjórnmálamenn fara að líta á andstæðinga sína sem óvini. Við höfum horft upp á slíkt gerast annars staðar í heiminum og það leiðir aldrei til góðs. Ef stjórnmálamenn geta ekki borið persónulega virðingu fyrir hver öðrum, þá geta þeir reynt að bera virðingu fyrir þeim hlutverkum sem þeir sinna. Og ef það gengur ekki heldur þá hljótum við öll að geta borið virðingu fyrir þeim samlöndum okkar sem kosið hafa þetta fólk sem fulltrúa sína á Alþingi.
Sú staða sem er upp er slæm fyrir okkur alþingismenn, en það eru smámunir miðað við þá sameiginlegu hagsmuni sem við öll höfum af því að standa vörð um stjórnkerfið okkar og lýðræðið. Við þurfum öll að hafa þroska til að líta í eigin barm, sýna hvert öðru virðingu og minna okkur á að sameiginleg ábyrgð okkar allra er umfram allt gagnvart Íslandi og íslensku þjóðinni.