
Evrópuráðið er helsta stofnun Evrópu á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Einn helsti talsmaður mikilvægis ráðsins við stofnun þess var Winston Churchill. Þótt Churchill verði seint sakaður um skort á ensku þjóðarstolti þá var hann sannarlega enginn einangrunarsinni. Þvert á móti hafði hann botnlausa sannfæringu fyrir mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á vettvangi alþjóðlegra stofnana.
Í ræðu sem hann flutti í háskólanum í Zürich 19. september 1946, einungis rúmu ári eftir uppgjöf Þýskalands í síðari heimsstyrjöldinni, lagði Churchill áherslu á að Evrópa þyrfti að þétta samstöðu sína og forðast hinn hryllilega þjóðerniságreining, sem sprottinn var af útþenslustefnu þýsku þjóðanna og hafði á 20. öldinni spillt friði í Evrópu og farsældarhorfum alls mannkyns. Í augum Churchill fólst svarið ekki í hefnd og einangrun, heldur að efla samstarf Evrópuþjóða til muna. Í kjölfar hryllings styrjaldarinnar þyrfti að fullnægja réttlæti að því leyti sem það væri mögulegt en finna svo leiðir til þess að líta fram á veginn í eins konar „blessuðu algleymi“ þar sem þjóðir álfunnar beindu kröftum sínum í farveg uppbyggingar og samvinnu, frekar en haturs og hefndarþorsta. Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að Frakkland og Þýskaland yrðu kjölfesta í upprisu Evrópu, en líka á starf fjölþjóðlegra stofnana þar sem styrkur einstakra ríkja væri tempraður af samtarfi margra. „Smá ríki munu hafa sömu stöðu og hin stærri og efla hróður sinn með framlagi sínu til sameiginlegs málstaðar,“ sagði Churchill.
Í inngangstexta sáttmálans um stofnun Evrópuráðsins segir að stofnríkin vilji „staðfesta á ný trú sína á þau verðmæti, andleg og siðferðileg, sem eru hin sameiginlega arfleifð þessara þjóða og hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar, en þessi meginhugtök eru undirstaða hins sanna lýðræðis…“ Undir þetta tókum við Íslendingar þegar við urðum tólfta aðildarríkið árið 1950. Það var stór og afgerandi yfirlýsing fólgin í því að okkar fámenna ríki stimplaði sig með þessum hætti inn sem fullgildur þátttakandi í því sameiginlega verkefni Evrópuráðsins að vera vettvangur evrópskrar samvinnu á grundvelli stofnsáttmála þess. Með því sýndum við Íslendingar að þrátt fyrir sterka hlutleysistaug fyrri áratuga þá ætluðum við ekki að sitja hjá í þeirri þróun sem Evrópu var svo nauðsynleg í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Með því að taka þátt í samstarfi annarra ríkja var Ísland ekki að draga úr fullveldi sínu og sjálfstæði heldur undirstrika það og styrkja. Við vorum líka, sennilega ómeðvitað, að taka áskorun mesta stjórnmálaleiðtoga Evrópu á 20. öldinni, Winston Churchill, um að efla hróður Íslands með framlagi til sameiginlegs málstaðar. Um þessar mundir virðist mörgum gleymdar þær lexíur sem leiddu til aukinnar samvinnu ríkja á alþjóðasviðinu; en sú gleymska er hættuleg og á ekkert skylt við hið „blessaða algleymi“ sem Churchill taldi nauðsynlegt eftir stríðshörmungar síðustu aldar.
Í upphafi þess árs var til mín leitað um að gefa Evrópuráðinu færi á að skipa mig sem sérstakan erindreka aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins um stöðu úkraínskra barna. Þetta kom mér í opna skjöldu en ég þurfti ekki langan umþóttunartíma heldur ákvað að svara kallinu og gera mitt besta í þágu málstaðar sem ég hef djúpa ástríðu fyrir. Staðan er óvenjuleg innan Evrópuráðsins og ég sinni henni launalaust því ég tel þetta framlag samræmast vel því hlutverki sem ég hef sem íslenskur þingmaður, að styðja við sameiginleg málstað í samvinnu við nánustu vina- og bandalagsríki okkar.
Ég er þakklát fyrir þetta og að vinnan sé framlag Íslands til þessa mikilvæga málstaðar í gegnum stofnum sem við erum aðilar að. Þingmennskan og þessi vinna fara almennt prýðilega saman en gallinn er sá að samkvæmt lögmálum eðlisfræðinnar get ég ekki frekar en annað fólk verið á tveimur stöðum í einu og ekki alltaf stýrt því hvenær ég þarf að sinna skyldum utan landssteinanna. Í síðustu viku greindi mbl.is frá því að á síðasta þingi hafi ég tekið þátt í færri atkvæðagreiðslum en aðrir þingmenn. Fyrir utan vinnu erlendis sem nefndarmaður í utanríkismálanefnd og þriggja manna þingmannanefnd NATO, er tölfræðin þannig að á nýliðnu þingi fór tæpur helmingur allra atkvæðagreiðslna fram á fjórum dögum en þrjá af þeim var ég að gegna skyldum á vegum ráðsins í þágu úkraínskra barna sem Rússar hafa stolið.
Störf þingmanna eru fjölbreytt og í mínu tilviki, vegna reynslu á alþjóðasviðinu undanfarin ár, passa þau kannski ekki alveg inn í hefðbundin hólf á Íslandi. Ég er bæði meðvituð um, og sátt við það, að passa ekki alveg í fyrirfram ákveðin hólf stjórnmálamannsins, ég hef kannski aldrei gert það. Ég er tel forgangsröðunina rétta, bæði í þágu Íslands og ekki síður í þágu þeirra sameiginlegu hagsmuna sem við eigum með öllum þeim í Evrópu sem vilja leggja rækt við hina sameiginlega arfleifð og „hin sönnu upptök einstaklingsfrelsis, stjórnmálalegs frjálsræðis og skipunar laga og réttar.“