Gerum þetta saman

Ekki er hægt annað en að hefja pistil þennan sunnudaginn á því að óska okkur öllum til hamingju með að hafa nú endurheimt eðlilegt frelsi okkar til athafna, nú þegar felldar hafa verið úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. Orð sem við höfum notað svo óþægilega mikið síðastliðna sextán mánuði verða nú vonandi geymd lítt notuð í sögubókunum um langa hríð. Árangur íslensks samfélags í baráttu við heimsfaraldur og afleiðingar hans er góður. Við búum í sterku samfélagi sem við getum verið stolt af og þakklát fyrir.

Afnám takmarkana er gert á grundvelli hinnar góðu þátttöku sem fengist hefur í bólusetningu þjóðarinnar. Um 87% þeirra sem til stendur að bólusetja hafa nú þegar fengið að minnsta kosti fyrri skammt. Þetta veitir trausta vörn í samfélaginu gegn því að sýking geti dreift sér og valdið þannig heilsufarstjóni að heilbrigðiskerfinu standi ógn af. Hvað framtíðin ber í skauti sér er óvíst, en miðað við stöðuna og reynslu okkar er það rétt ákvörðun að taka þetta risastóra skref. Við viljum búa í frjálsu samfélagi, en til þess að verja heilsu fólks þurftu stjórnvöld í einhverjum skilningi að fá frelsi fólks að láni undanfarna mánuði. Það kom hins vegar aldrei annað til greina en að skila því aftur til réttmætra eigenda, fólksins sjálfs.

Í krafti fjöldans

Tæplega tuttugu og eitt þúsund manns tóku afstöðu til þess hverjir yrðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á framboðslistum hans fyrir alþingiskosningarnar í haust. Það er sannkölluð lýðræðisveisla. Mikil og góð þátttaka í prófkjörum er öflugt upphaf á sókn okkar Sjálfstæðisfólks til sigurs í haust. Ég hlakka til að taka þátt í þeirri sókn með öllum öðrum frambjóðendum og öllu okkar góða stuðningsfólki.

Við þau tímamót að hafa fengið sterka kosningu til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi er skemmtilegt að líta yfir árin mín í starfi flokksins. Fyrir 14 árum síðan var ég tvítug, nýútskrifuð úr Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og tók þá í fyrsta skiptið, stolt, sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Í kjölfarið settist ég í stjórn SUS fyrir hönd kjördæmisins og var formaður ungra á Akranesi með frábæru ungu fólki. Tveimur árum síðar tók ég í fyrsta skipti þátt í prófkjöri og tók í kjölfarið sæti á lista. Í kosningunum þar á eftir, árið 2013, tók ég 6. sæti á listanum og starfaði sem kosningastjóri í undir forystu Einars K. Guðfinnssonar. Í kjölfarið varð ég framkvæmdastjóri þingflokksins og síðar aðstoðarmaður Ólafar okkar Nordal, þáverandi varaformanns flokksins og innanríkisráðherra. Árið 2016 ákvað ég að taka þátt í prófkjöri, ófrísk að dóttur minni og stefna á þing. Þau tæpu fimm ár sem eru liðin í embætti ráðherra, og varaformanns flokksins sl. þrjú ár, hafa verið viðburðarík, þroskandi, krefjandi en fyrst og síðast gefandi og kröftug.

Í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins leiðir kona listann í Norðvesturkjördæmi. Að vera varða á þeirri leið að ungt fólk og sterkar konur eigi fullt erindi í hvers kyns ábyrgðarstöður skiptir mig miklu máli. Ég fagna því þess vegna að þau sögulegu tíðindi hafi orðið.

Frambjóðendur, kjósendur, sjálfboðaliðar, starfsfólk Valhallar – öllu þessu fólki vil ég þakka fyrir þátttökuna. Við gerðum þetta saman. Við gáfum flokkssystkinum tækifæri til að velja sigurstranglegan framboðslista og sýnir þátttakan að Sjálfstæðisflokkurinn er fjöldahreyfing. Það sannaði sig einnig í öllum þeim gríðarmörgu sjálfboðaliðum sem komu að framkvæmd prófkjöranna. Á sjöunda hundrað sjálfboðaliða störfuðu við þau, í yfirkjörstjórnum, í undirkjörstjórnum, bæði í kosningu utan kjörfundar og á kjörfundi, við talningu atkvæða og fleira. Við gerum þetta saman.

Stundum er sagt að enginn eigi neitt í pólitík. Það er mikið til í því. En stjórnmálamaður sem á annað borð vill starfa í Sjálfstæðisflokknum á þó alltaf eitt, óháð því hver hefur betur í einstaka kosningum eða málum. Sá stjórnmálamaður á nefnilega alltaf félaga sína að: tugþúsundir flokkssystkina sem deila með henni eða honum sígildum grunnhugsjónum Sjálfstæðisstefnunnar.

Verjum frelsið saman

Við tökumst óhikað á um ólíkar skoðanir og áherslur, en komum síðan sameinuð fram. Það er vegna þess að við erum sammála um lífsskoðun, við erum með öðrum orðum sammála um grundvallaratriði. Það er opinbera leyndarmálið að baki velgengni Sjálfstæðisflokksins.

Þar slær hjarta okkar. Þar liggur gróskan og slagkrafturinn; slagkrafturinn sem enginn annar flokkur keppir við. Við stöndum saman um dýrmætar hugsjónir, sem koma meðal annars fram í þeirri einlægu gleði okkar að geta skilað frelsi fólks aftur, nú þegar ekki er lengur slík hætta af faraldrinum að það réttlæti inngrip í líf fólks. Sums staðar annars staðar hafa stjórnmálamenn og valdhafar reynst býsna viljugir til þess að ríghalda í völdin sem áttu aðeins að vera tímabundin meðan mesta hættan vofði yfir. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar flokkur frelsis.

Að leiða Norðvesturkjördæmi og vera varaformaður í slíkri hreyfingu eru hlutverk sem ég tek alvarlega og er þakklát fyrir að fá að sinna.