Menntakerfið fær falleinkunn

Undanfarin ár hefur umræða um stöðu menntamála á Íslandi reglulega skotið upp kollinum og alltaf vegna slæmra tíðinda. Á milli þessara toppa í umræðunni krauma áhyggjurnar en önnur máefni lenda í kastljósi þjóðmálaumræðunnar og skólakerfið mallar áfram í sama gír.

Fyrir rúmum mánuði skrifaði ég á þessum vettvangi um hvernig þessi óheillaþróun í vitsmunalegri heilsu er farin að ógna grunnstoðum lýðræðislegs samfélags. Þetta er mjög raunveruleg en hljóðlát ógn sem sífellt erfiðara verður að vinda ofan af eftir því sem stærri hluti samfélagsins glatar getunni til þess að skilja umhverfi sitt og vera dómbær á þróun þess.

Og áfram rignir inn vondum fréttum. Í vikunni bárust fregnir af því að í úttekt Efnahags- og framfarastofnunar (OECD) sé því haldið fram að hnignun grundvallarfærni íslenskra nemenda á síðustu tveimur áratugum sé ógnvekjandi og að hún stefni í tvísýnu efnahagslegri velferð okkar og lífsgæðum. Skýrslan nefnir sérstaklega að Ísland stendur sig áberandi verr en önnur lönd í að mennta börn sem hafa annað móðurmál en þjóðtunguna. Ef eingöngu er litið til efnahagslega þáttarins þá telur stofnunin að hin afleita staða í grunnfærni leiði til 5% lækkunar í framleiðni.

Áhyggjur af stöðu menntunar einskorðast ekki við Ísland, en staðan hér nálgast nú að skera sig algjörlega úr miðað við allar þjóðir í kringum okkur. Við erum slökust og staðan fer versnandi, og hún versnar hraðar hér en víðast annars staðar. Vísbendingarnar eru alls staðar og þær segja allar hið sama; raunverulegt neyðarástand ríkir.

Þessi hrikalega staða er af völdum okkar sjálfra því ekkert í ytra umhverfi íslenskra skóla er verra en það sem aðrar þjóðir þurfa að glíma við. Við höfum búið til kerfi hér innanlands sem skilar óviðunandi niðurstöðum. Við getum engum öðrum en sjálfum okkur kennt um þessar hrakfarir.

Engum dettur í hug að íslenskir nemendur séu verr en aðrir í stakk búnir til þess að tileinka sér færni og þekkingu. Íslenskir kennarar hafa án nokkurs vafa getu til þess að ná meiri árangri þótt skýrsla OECD nefni sérstaklega mælikvarða sem sýna að gæði kennslu á Íslandi sé lakari en í öðrum OECD löndum. Ísland getur heldur ekki kennt efnahagslegri fátækt um þennan slaka árangur. Við erum rík. Og þegar kemur að fjárveitingum þá er grunnskólakerfið okkar dýrara í rekstri en nánast alls staðar annars staðar. Hér er því um að ræða brotlendingu á þeirri hugmyndafræði sem ráðið hefur för við stjórn skólamála á Íslandi.

Ég hef setið á þingi frá 2016 og sat í ríkisstjórn í sjö ár. Á þessum tíma hefur öðru hverju sprottið upp alvarleg umræða um stöðu skólakerfisins. Það er hins vegar mín upplifun að það hafi reynst ákaflega vandasamt fyrir stjórnmálamenn að blanda sér í umræðu um stöðu menntakerfisins. Sérfræðingar í skólamálum og forystufólk í kennarastétt bregst ekki vel við gagnrýni og því miður hafa stjórnmálin gjarnan brugðist við með því að stimpla sig fljótlega út úr umræðunni andspænis viðspyrnu frá fagaðilum. Þetta hefur því miður leitt til þess að umræða um menntamál og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag hefur aldrei náð því flugi sem nauðsynlegt er á vettvangi stjórnmálanna. Virðingarverðar tilraunir fjölmiðla til þess að setja málið á dagskrá hafa fljótlega fjarað út. Í stað þess að lifandi umræða hafi myndast í samfélaginum leiðir til úrbota hefur stefnumótun í málaflokknum verið nánast alfarið í höndum sérfræðinga, embættismanna og kennaraforystunnar sjálfrar. Í þessum efnum eiga bæði stjórnmálamenn og fagaðilarnir hluta af skömminni. Það er skiljanlegt að fagaðilar vilji fá að ráða í sínum málaflokki, en ábyrgðin á þróun samfélagsins er á herðum lýðræðislega kjörinna yfirvalda.

Er staðan þá stjórnmálamönnum að kenna? Já, að miklu leyti. Er hún embættismönnum í ráðuneytum og ráðhúsum að kenna? Já, sannarlega eiga þeir sök. Hafa fagaðilar og fræðimenn brugðist? Já, greinilega. Hvað með kennara og forystu þeirra? Jebb. Þeir geta ekki skorast undan ábyrgð heldur. En hverjir eru það sem eiga enga sök en bera allan skaðann? Jú, það eru börn sem fá ekki þann undirbúning sem þau þurfa og foreldrar þeirra sem treysta skólum landsins fyrir vitsmunalegu uppeldi barna sinna.

Hluti af vandanum tengist því að hér er um langtímaviðfangsefni að ræða. Aðgerðir til þess að bæta úr stöðunni geta tekið lengri tíma en eitt kjörtímabil og enn meiri tími líður þar til árangur eða árangursleysi kemur í ljós. Viðfangsefnið er því að sumu leyti sambærilegt við stór langtímamál á borð við varnar- og öryggismál, þar sem áhersla hefur verið lögð á að draga úr flokkspólitískum flokkadráttum og stuðla að samstöðu um sameiginlega hagsmuni allrar þjóðarinnar. Skólamálin eru þannig mál og nú ríkir neyðarástand.

Fingrabendingar og pólitískar kýtingar munu engu skila. Málið er svo mikilvægt að ábyrgir stjórnmálamenn verða að hafa staðfestu til að setja það í forgang þótt pólitískur ávinningur sé óviss, og þroska til þess að láta lönd og leið hefðbundna hagsmuni stjórnmálamanna, flokka eða hagsmunaafla. Ég skora því á ríkisstjórnina að efna til sambærilegrar samvinnu um neyðarástandið í grunnskólakerfinu eins og utanríkisráðherra hefur gert um varnarmál. Stjórnmálin þurfa að taka í stýrið og við megum engan tíma missa.