Í starfi stjórnmálafólks reynir bæði á getu til þess að sannfæra kjósendur um tiltekna sýn og gera svo sitt besta til þess að hafa áhrif á þróun mála í samræmi við þá sýn. Vitanlega þurfa stjórnmálamenn að sækjast eftir raunverulegum völdum til þess að hafa möguleika á því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Raunveruleikinn í lifandi lýðræðissamfélagi er býsna flókinn, því enginn fær allt það sem hann vill og flest gengur hægar en vonast er eftir.
Málamiðlanir eru því óumflýjanlegur hluti þess veruleika sem ábyrgir stjórnmálamenn standa frammi fyrir. Þær málamiðlanir eiga sér stað þegar verkefnum er forgangsraðað innan flokka og þegar flokkar sækjast eftir samstarfi við flokka sem deila ekki sömu sýn. Stjórnmálaflokkar geta líka þurft að slá af kröfum og markmiðum í því skyni að ganga ekki of geyst fram gagnvart rótgrónum venjum eða raska réttmætum væntingum borgaranna sem byggt hafa framtíðaráform í trausti þess að sæmilegur stöðugleiki ríki um starfsumhverfi þeirra og réttindi.
Það getur því verið einn mikilvægasti prófsteinninn á stjórnmálamenn og flokka hverju þeir eru tilbúnir til þess að fórna þegar kemur að málamiðlunum. Hverju má fórna til þess að ná stærri markmiðum og hvar þær línur liggja sem ekki kemur til greina að fara yfir eru vandasamar spurningar sem samt þarf að svara.
Ósjálfbærar málamiðlanir
Tvö af þeim málum sem sitjandi ríkisstjórn hefur ákveðið að leggja fyrir þingið nú á vormánuðum eru þess eðlis að þau vekja upp spurningar um hvar þessar línur liggja. Annars vegar er það strandveiðifrumvarpið og hins vegar ákvörðun um að tengja greiðslur almannatrygginga við launavísitölu. Bæði eru þessi mál þess eðlis að þau eru líkleg til þess að hafa veruleg áhrif til langs tíma, vekja upp væntingar sem erfitt getur verið að standa við og fela í sér vísvitandi glannaskap af hálfu þess hluta ríkisstjórnarinnar sem hefur nánast gengist við því að um hrossakaup sé að ræða.
Með róttækum breytingum umhverfi strandveiða er ekki bara verið að koma til móts við hagsmuni kjósenda eins stjórnarflokksins heldur að þrýsta í gegn verulegri breytingu á þeirri hugmyndafræði sem liggur til grundvallar því fiskveiðistjórnunarkerfi sem hefur í senn tryggt sjálfbærni og stuðlað að sköpun gríðarlega efnahagslegra verðmæta. Með þeim breytingum, sem Flokkur fólksins heimtaði og Samfylkingin og Viðreisn ætla að láta eftir honum, verða ekki bara uppgrip hjá núverandi eigendum smábáta. Fjöldinn allur af framtakssömum einstaklingum mun taka nýjar ákvarðanir, gera nýjar áætlanir og fara út í nýja fjárfestingu í ljósi þess að löggjafinn hefur gefið skýr skilaboð um gjörbreyttar forsendur. Forsvarskonur Samfylkingar og Viðreisnar vita mætavel að breytingin sem þær ætla að þrýsta í gegn er óhagkvæm en þær leyfa tilganginum að helga meðalið. Áhrifin af því loforði að fjölga strandveiðidögum upp í 48 hefur vitanlega haft þau áhrif að sprenging hefur nú þegar orðið í leyfisbeiðnum. Öllum hefði mátt vera ljóst að þetta yrði raunin og með þessari breytingu eru gefin skilaboð út í íslenskt samfélag sem mynda væntingar og þau skapa nýja og sterkari hagsmuni. Svo á að skila þessum veiðiheimildum með óraunhæfum hætti einhvern tímann í framtíðinni með óljósum hætti. Og þar af leiðandi verður þungbærara og ósanngjarnara að snúa aftur af þessari óheillabraut fyrir ábyrg stjórnvöld. Afleiðingin af því að ná fram þessu pólitíska markmiði eru grafa undan sjálfbærni í mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.
Hitt málið snýr að væntingum fólks sem treystir á lífeyrisgreiðslur. Sú breyting sem ríkisstjórnin hefur ákveðið felur í sér að tengja greiðslur úr almannatryggingakerfinu við launavísitölu. Þessi aðgerð er annað dæmi um meðvitaðan glannaskap, því bersýnilegt er að þarna er kosningaloforð Fólks flokksins framkvæmt án þess að hugur fylgi máli hjá Viðreisn og Samfylkingu. Að mati fjármálaráðuneytisins getur breytingin „stangast á við markmið um sjálfbærni ríkissjóðs til lengri tíma.“ Með því að framkvæma þessa breytingu í þágu pólitískra vinsælda er ábyrgu stjórnmálafólki framtíðarinnar gert mun erfiðara um vik að bregðast við þeim fyrirsjáanlegu úrlausnarefnum sem íslenskt samfélag stefnir í. Á komandi árum og áratugum munu stjórnvöld þurfa að taka erfiðar ákvarðanir til þess að tryggja að verðmætasköpun í samfélaginu standi undir þeirri þjónustu og á sama tíma mun sífellt hærra hlutfall þjóðarinnar treysta á lífeyrisgreiðslur til lífsviðurværis vegna lýðfræðilegrar þróunar. Þessi þróun felur í sér hættu á verulegri samfélagslegri togstreitu og pólitískri upplausn. Þarna er um að ræða málamiðlun sem ábyrgir stjórnmálaflokkar ættu ekki að hafa freistast til þess að gera.
Stjórnmál eru vandasöm og það væri hræsni að fella allsherjardóma yfir því þegar gerðar eru málamiðlanir í þágu samstarfs og stærri hagsmuna. Það þekki ég vel. En það er ekki sama hvernig málamiðlanir eru gerðar og með því að veita þessum tveimur vinsældamálum Fólks fólksins brautargengi hafa Samfylkingin og Viðreisn tekið vísvitandi ákvörðun um að grafa undan sjálfbærni bæði fiskveiðikerfisins og ríkisfjármálanna.