Í kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningar sem farið hefur fram síðustu vikur hefur falist ágæt áminning um það grundvallarhlutverk sem stjórnmálamönnum er ætlað að sinna. Þingmenn og forysta Sjálfstæðisflokksins fóru hringferð um landið þar sem við hittum kjósendur og áttum hreinskiptin samtöl um landsins gagn og nauðsynjar, eins og það heitir. Þótt mörg stór mál hafi verið í hringiðu fjölmiðla síðustu vikna stendur þó einna helst eftir að langflestir almennir kjósendur hafa hugann fyrst og fremst við þau mál sem snerta hagsmuni þeirra og lífsgæði með beinum hætti.
Frambjóðendur á listum Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru mörg hundruð talsins. Þessi fjölmenna og öfluga sveit vinnur nú stefnumálum sínum fylgis um allt land á lokasprettinum fyrir kjördag. Hvarvetna ríkir metnaður til að gera betur í þágu samfélagsins, með bjartsýni, gleði og kraft að leiðarljósi. Fólkið sem gefur kost á sér til þess að sinna störfum á vettvangi sveitarstjórna gerir það af einlægum metnaði fyrir samfélagið sitt og vilja til þess að láta gott af sér leiða.
Mörg mikilvægustu hagsmunamálin
Sveitarfélögin bera ábyrgð á mörgum mikilvægustu hagsmunamálum borgaranna og hafa því veruleg áhrif á lífsgæði okkar allra. Því miður er víða pottur brotinn en við höfum líka dæmin um hvernig hægt er að standa vel að málum, veita góða þjónustu og sýna á sama tíma ráðdeild í rekstri. Í því samhengi er ágætt slagorðið sem framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur tekið sér; að bjóða upp á Reykjavík sem virkar. Það er — þegar öllu er á botninn hvolft — það sem stór hluti af sveitarstjórnarmálum snúast um. Skólar og leikskólar þurfa að virka fyrir börn og foreldra, samgöngur þurfa að virka, sorphirða og innviðir þurfa að virka og svo mætti lengi telja. Fjölmargir þættir á verksviði sveitarstjórna eru þess eðlis að þeir geta haft úrslitaáhrif á lífsgæði, og þar með möguleika samfélagsins til þess að laða að sér fólk og halda því.
Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Þegar kemur að því að tryggja gæði þjónustu á sveitarstjórnarstiginu er ekki aðeins spurning um fjármagn heldur viðhorf til þeirra verkefna sem sinna þarf í samfélagi. Það er vanmetin staðreynd að útgjöld eru ekki ávísun á betri þjónustu eða meiri afköst. Og sumum verkefnum er ofaukið. Það er eðlileg krafa á stjórnmálamenn að þeir hafi kjark til að forgangsraða. Þann kjark hafa leiðtogar okkar Sjálfstæðismanna á sveitarstjórnarstiginu. Krafturinn býr í fólkinu og hugvitinu eru lítil takmörk sett; verkefni okkar stjórnmálamanna er að hlúa að jarðveginum og sjá til þess eins og frekast er unnt að forsendur séu til staðar til að hægt sé að nýta tækifærin. Ég get fullvissað lesendur um að við finnum öll til ábyrgðar í þeim efnum og verkefnin eru ærin.
Skýr hugsjón hristir að lokum af sér jafnvel hörðustu persónuátök. Og hún leikur sér að því að umbera blæbrigðamun í skoðunum flokksmanna, sem er að sjálfsögðu fyrir hendi eins og vera ber í breiðri fjöldahreyfingu.
Þrátt fyrir skýra hugsjón boðar Sjálfstæðisflokkurinn ekki alltumlykjandi hugmyndakerfi sem ætlað er að vera forskrift að öllu lífi og lífsviðhorfi manna. Sjálfstæðisstefnan er ekki „stjórnmálatrúarbrögð“ sem geymir svör við öllum spurningum án þess að skilja eftir pláss fyrir sjálfstæða hugsun. Þannig má á vissan hátt segja að umburðarlyndi og svigrúm fyrir ólík viðhorf séu innbyggð í Sjálfstæðisstefnuna. Það er styrkur en ekki veikleiki. Það er hins vegar hluti af hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að taka til hendinni þegar verk þarf að vinna, og leggja höfuðið í bleyti þegar viðfangsefni þarf að leysa. Það er mikilvæg forsenda til þess að ná árangri við rekstur sveitarfélags, eins og hvern annan rekstur, að láta ekki hendur fallast gagnvart viðfangsefnum, banda ekki ábyrgðinni frá sér eða kenna öðrum um þegar miður gengur. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eiga það sameiginlegt að ætla að láta hendur standa fram úr ermum.
Framsýni og skynsemi
Í Reykjavík hefur Sjálfstæðisflokkurinn kynnt framsýna og skynsama stefnu í mörgum málum sem auka mun lífsgæði borgaranna og bæta daglegt líf, til að mynda í húsnæðismálum og í dagvistunar- og leikskólamálum þar sem boðið verður upp á fleiri valkosti og fjölbreyttari þjónustu. Nýleg þjónustukönnun í stærstu sveitarfélögum landsins sýnir að íbúar eru óánægðir með þjónustu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík, sjálfri höfuðborg landsins. Reykjavík þarf að virka og hefur alla burði til að gera það sé rétt á málum haldið. Hið sama á við svo víða um land þar sem kjósendum stendur nú um helgina til boða að þiggja starfkrafta öflugra frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins.
Valið er skýrt.