Jólin eru hátíð ljóssins enda marka þessir köldu og dimmu dagar á norðurhveli jarðar þau tímamót að sólin byrjar sína óhjákvæmilegu sigurgöngu, daginn fer að lengja og eftir að þreyjum þorra og góu má gera sér vonir um að það fari líka að hlýna. Það er auðvitað engin tilviljun að við skreytum hús okkar með ljósum þessar dimmustu vikur ársins og gerum okkur glaðan dag með vinum og vandamönnum.
Og jólin eru líka kölluð friðarhátíð. Fyrir okkur Íslendinga sem þekkjum raunverulegan ófrið einkum af afspurn er þessi hluti jólahátíðarinnar ekki eins nærtækur. En fyrir þau sem þekkja ófrið af eigin raun þá er ekkert mikilvægara en friður. Ekki einu sinni ljósið.
Því miður ófriðvænlegra í okkar heimshluta en verið hefur um langan aldur. Í Úkraínu er fólk rænt bæði ljósi og friði þessi jól af völdum linnulausra árása Rússa undanfarin tæp þrjú ár. Í stað þess að menn og konur í Úkraínu geti einbeitt kröftum sínum að því að gera samfélagið sitt betra þá hafa milljónir neyðst til að flýja og milljónir venjulegs fólks lagt niður dagleg og uppbyggileg störf til þess að taka sér vopn í hendur í því skyni að verjast. Margir hafa örkumlast á líkama og sál eða fallið á vígvellinum í nafni baráttunnar fyrir frelsi og friði.
Frá því tilefnislaus innrás Rússlands varð að veruleika hefur afstaða mín sem utanríkisráðherra verið skýr. Ísland stendur með Úkraínu og við leitum að leiðum sem gagnast þeim, en ekki leiðum sem hentar okkur sjálfum. Ég hef skilning á því að á Íslandi finnst mörgum ónotaleg tilhugsun að við leggjum hernaði lið, þótt ég efist ekki um að Íslendingar séu undantekningarlítið hlynntir því að við leggjum réttlætinu lið. Ákvarðanir mínar um að leggja fjármagn til vopnakaupa Úkraínu ásamt öllum nánustu vina- og bandalagsþjóðum okkar er einfaldlega ákvörðun um að styðja við réttláta varnarbaráttu þjóðar sem þráir frið. Framlag Íslands er smátt í sniðum en það skiptir máli að undirstrika hvar hugur okkar liggur.
Nýr veruleiki
Þótt ekki séu gerðar miklar kröfur til framlags Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins þá tel ég lágmark að við séum áreiðanlegur bandamaður í pólitískum skilningi, að við beitum rödd okkar afgerandi í þágu þeirra gilda sem við eigum sameiginleg með vina- og bandalagsþjóðum okkar og að þau geti treyst á að afstaða okkar litist hvorki af innanlandspólitík eða að við hlaupumst undan merkjum til þess að sleppa billegar en aðrir frá því þegar beita þarf efnahagslegum og pólitískum þrýstingi.
Við stöndum með þeim sem hafa lofað að standa með okkur og við svíkjum ekki bandamenn okkar til að græða á því sjálf.
Friðsæld Íslands
Vitaskuld hlýtur Ísland alltaf að tala fyrir friðsamlegri úrlausn í deilumálum ríkja. Í því felst hollusta okkar við alþjóðakerfið og þær alþjóðastofnanir sem stofnsettar hafa verið til þess að standa um það vörð. Í þessari afstöðu felst engin áberandi sérstaða. Flest ríki hafa kvittað upp á nákvæmlega þessa nálgun. Vandamálin byrja þegar ríki ákveða að virða þessar leikreglur að vettugi eins og Rússland hefur gert með freklegum hætti.
Oft heyrist að Ísland gæti þjónað sem sérstök fyrirmynd hvað varðar friðsæld. Þetta kann mörgum að þykja göfugur og gagnlegur málflutningur, öðrum kann að finnast hann saklaus; en við þurfum að sýna nærgætni. Friðsæld Íslands er einkum komin til vegna sögulegrar og landfræðilegrar lukku. Fyrir það megum við sannarlega vera þakklát, en það gefur okkur ekki tilefni til þess að setja okkur á háan hest. Friðarboðskapur lánsamrar þjóðar getur virst skeytingarlaus og jafnvel hrokafullur í eyrum þeirra sem eru nauðbeygðir til þess að grípa til vopna til þess að verja sig og hafa ítrekað þurft að sæta vopnuðum innrásum og blóðugri hersetu.
Þetta þekkja flestar þjóðir Evrópu í einhverjum mæli. Slík reynsla hefur kennt þessum þjóðum að það sé þess virði að fórna nánast hverju sem er til þess að komast hjá þess háttar örlögum. Öll lönd sem hafa losnað undan valdi Rússa vilja fá að vera í friði frá þeim og ekkert ríki hefur gengist Rússlandi á hönd nema undir byssustingjum.
Friður um jól
Í okkar farsæla samfélagi þurfum við að stuðla að gleði og hamingju, okkar eigin og annarra, með hegðun okkar og framferði frá degi til dags. Burtséð frá trú eða trúleysi hvers og eins þá veitir afmælisbarn mánaðarins ennþá merkilega góða leiðbeiningu um hvernig við getum farið að því. Kærleikurinn er ætíð svarið við hatrinu, ljósið sigrar alltaf myrkrið og um þessi jól biðjum við þess að raunverulegur og réttlátur friður megi ríkja um veröld alla.
Nýtum hátíðina til að láta gott af okkur leiða, sýna öðrum kærleika, þakka fyrir það sem við höfum og vera almennileg hvert við annað.
Ég óska lesendum gleðilegra jóla, farsældar og friðar á komandi ári. Ég þakka fyrir samfylgdina hér í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í á áttunda ár og hlakka til framhaldsins.